Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Önnur ríki fylgjast með þróun veirunnar á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að alþjóðasamfélagið fylgist með þróun kórónuveirufaraldursins á Íslandi. Það sé vegna þess að engin forskrift sé til að því hvernig bregðast eigi við covid-smitum í bólusettu þjóðfélagi og því geti þróunin á Íslandi næstu vikur haft mikil áhrif á hvernig þjóðir kjósi að haga sóttvörnum sínum til framtíðar.

Katrín segir að umræða sé hafin um hvort horfa eigi til alvarlegra veikinda fremur en fjölda smitaðra þegar kemur að ferðatakmörkunum á milli landa og í því tilliti sé litið til Íslands. „Það sem er auðvitað líka staðreynd er að við erum mjög framarlega þegar kemur að bólusetningum þannig að að einhverju leyti mun það sem gerist hér á landi skipta miklu máli fyrir þessa alþjóðlegu umræðu.“

Átta dagar eru síðan covid-smitum tók að fjölga mjög og enn hefur enginn veikst alvarlega. Katrín segir það þó ekki til marks um að of langt hafi verið gengið í að setja á samkomutakmarkanir. „Það tel ég ekki vera og vil ítreka að bæði þegar kemur að afléttingum en líka takmörkunum, höfum við verið að fylgja ráðgjöf okkar færustu sérfræðinga. Við tókum þá ákvörðun til að mynda að hætta að skima bólusetta á landamærunum að tillögu sóttvarnalæknis. Við réðumst í afléttingar að tillögu sóttvarnalæknis vegna þess að við töldum það óhætt. Nú þurfum við að sjálfsögðu að staldra við og meta stöðuna út frá þeim gögnum sem liggja fyrir.“