Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mun færri á spítala nú en í fyrri bylgjum á Englandi

27.07.2021 - 19:30
Mynd: EPA-EFE / EPA
Mun færri eru á spítala á Englandi vegna COVID-19 nú en í síðustu bylgju. Einn af virtustu faraldsfræðingum Bretlands er bjartsýnn á að sjúkdómurinn verði ekki lengur faraldur þegar líða fer á haustið.

Rétt rúm vika er síðan öllum takmörkunum var aflétt innanlands á Englandi. Síðustu sex daga hefur greindum smitum á dag farið fækkandi. Þetta hefur ekki farið fram hjá forsætisráðherranum. „Það er afar mikilvægt að hlaupum ekki á okkur með þetta. Fjórða þrepið í opnuninni var aðeins fyrir fáeinum dögum og fólk verður að fara áfram með gát og stjórnvöld gera það sömuleiðis áfram,“ sagði Boris Johnsson í viðtali í dag. 

Þessi þróun er nokkuð óvænt, því hafði verið spáð að smitfjöldi gæti náð allt upp í 100 eða 200 þúsund á dag. Á meðal þess sem talið er hafa þessi áhrif er frí í skólum, gott veður sem gerir það að verkum að fólk hittist frekar úti og endalok Evrópukeppninnar í fótbolta en smitum fjölgaði talsvert í kringum hana á Englandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - gov.uk
Smit á dag og fjöldi á sjúkrahúsi síðustu daga.

Nítjánda júlí, sama dag og takmörkunum var aflétt, voru hátt í 35 þúsund greind með COVID-19, í gær voru þau um 12.000 færri eða ríflega 22.000. Í dag eru fleiri en fimm þúsund á spítala á Englandi vegna COVID-19, þeim hefur farið fjölgandi síðustu daga. En sé litið til síðustu bylgju þegar smitfjöldi á dag var svipaður og í þessari, þá er mikill munur á fjölda þeirra sem leita þarf á spítala. Líklega er þetta bólusetningu að þakka, um 70% Breta hafa nú fengið að minnsta kosti eina sprautu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - gov.uk
Smit á dag og fjöldi á sjúkrahúsi í síðustu bylgju.

Bjartsýnn á COVID-19 verði ekki lengur faraldur

Neil Ferguson, prófessor við Imperial College og einn virtasti faraldsfræðingur Bretlands segir of snemmt að hrósa sigri. „Við getum séð það síðar í þessari viku og í næstu hvort sjúkrahúsinnlögnum sem nú fjölgar, fari fækkandi. Það ætti að styrkja okkur í því að við höfum séð hátind, kannski ekki hátindinn, en hátind eins og er. Eins og kollegi minn var að segja þá verðum við að áfram að fara gætilega.“

Ferguson telur möguleika á því að smitum fari aftur fjölgandi þegar versnar í veðri og skólar hefjast að nýju. Hann er hins vegar bjartsýnn á framhaldið og segir forsendur breyttar. „Áhrifin af bóluefnunum hafa verið gríðarmikil við að draga úr hættunni á sjúkrahúsinnlögn og andláti. Og ég er nokkuð viss um að í seinni hluta septembermánaðar og í október þá verði COVID-19 sem farsótt að mestu að baki. Það verður áfram til staðar og fólk deyr áfram úr COVID-19 en farsóttin verður mikð til liðin hjá,“ segir hann.