Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hirðum af honum byssuna og drepum hann með henni.“

27.07.2021 - 22:20
Mynd: EPA-EFE / EPA POOL
Lögreglumenn sem voru á vakt þegar ráðist var inn í þinghúsið í Washington í janúar lýsa kynþáttaníði, morðhótunum og ofbeldi af hálfu innrásarhópsins. Skýrslutaka sérstakrar rannsóknarnefndar vegna innrásarinnar hófst í dag.

Það er ofsögum sagt að það ríki mikil sátt um rannsóknarnefndina sem á að fara ofan í saumana á hvað fór úrskeiðis þann 6. janúar þegar ráðist var inn í þinghúsið í Washington. Repúblikanar hafa margir sett sig upp á móti skipun nefndarinnar. 

„Pelosi þingforseti velur aðeins fólk í nefndina sem spyr þeirra spurninga sem hún vill. Það verður misheppnuð nefnd og misheppnuð skýrsla,“ sagði Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeild.

Hundruð stuðningsmanna Donalds Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna, gerðu áhlaup að þinghúsinu þann 6. janúar þar sem þingmenn staðfestu kjör Joe Biden. Fleiri en 100 lögreglumenn slösuðust í áhlaupinu. Skýrslutaka rannsóknarnefndarinnar hófst í dag. Þá báru vitni fjórir lögregluþjónar sem stóðu vaktina við þinghúsið 6. janúar. 

„Það sem við máttum þola þennan dag var eins og í bardaga frá miðöldum,“ sagði lögreglumaðurinn Aquilino Gonell, við skýrslutökuna í dag. 

„Meðan á bardaganum stóð var mér kippt úr röð lögreglumanna og dreginn inn í mannþröngina. Ég heyrði einn hrópa „Ég náði einum“. Svo heyrði ég múginn söngla: Hirðum af honum byssuna og drepum hann með henni,“ sagði Michael Fanone, sem sömuleiðis stóð vaktina þennan dag. 

En það er ekki aðeins framferði fólksins sem réðst inn í þinghúsið sem á að rannsaka heldur einnig ábyrgð þeirra sem mögulega skipulögðu, fjámögnuðu eða hvöttu til árásarinnar. 

„Ég vænti þess að rannsókn fari fram á þeirri starfsemi og þeim gjörðum sem leiddu til atburðanna þann 6. janúar og hvort samstarf hafi verið milli þessara þingmanna, starfsliðs þeirra og þessara hryðjuverkamanna,“ sagði lögreglumaðurinn Fanone.