Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefur ekki áhyggjur af verslunarmannahelginni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, hefur ekki teljandi áhyggjur af skemmtanahaldi um verslunarmannahelgina. Hann segir nóg hægt að gera þótt allt meiriháttar skemmtanahald hafi verið blásið af.

„Við erum að sjá dreifingu núna á mjög mörgum stöðum, bæði þar sem hafa verið fá smit og jafnvel engin smit áður. Þannig að þetta er að dreifast ansi víða um landið. Þetta eru yfirleitt samkomur þar sem eru ekkert endilega margir en fólk hefur dvalið í dálítinn tíma saman; afmæli, erfidrykkjur og jú svo auðvitað skemmtanalífið eitthvað líka,“ segir Víðir.

Það kemur væntanlega í ljós eftir verslunarmannahelgi hvort aðgerðirnar sem tóku gildi um helgina dugi til þess að hægja á fjölgun smita. Á sama tíma ætti að ráðast hvort, og þá hversu alvarlega, bólusettir einstaklingar veikjast.

Þótt ein mesta ferðahelgi landsins sé framundan hefur Víðir ekki áhyggjur af því að smittölur eigi eftir að rjúka upp eftir verslunarmannahelgi. „Okkar tilfinning er sú að það er mikill samstarfsvilji hjá þjóðinni að taka á þessu saman. Þetta eru auðvitað ekki ströngustu takmarkanirnar þannig að fólk getur nú gert margt þótt það sé ekki hægt að halda stórar hátíðir eða stóra tónleika eða eitthvað slíkt. En þá er hægt að gera ansi margt og við finnum að fólk ætlar að vera með í þessu.“