Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dæmdur fyrir brot gegn öryggislögum Hong Kong

27.07.2021 - 08:08
epa08296747 Commercial and residential buildings stand in Tung Chung, Hong Kong, China, 15 March 2020 (issued 16 March 2020). Tung Chung is located on Lantau Island, a few kilometres away from Hong Kong International Airport.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómur hefur fallið í máli fyrsta íbúa Hong Kong til að vera kærður fyrir brot gegn nýjum öryggislögum. Hinn 24 ára gamli Tong Ying-kit var dæmdur sekur í dag eftir að hafa ekið mótorhjóli inn í hóp lögreglumanna vopnaður byltingarfána.

Tong var handtekinn í júlí í fyrra og ákærður fyrir brot á hinum umdeildu öryggislögum sem tóku gildi 1. júlí 2020. Með lögunum urðu allar tilraunir til að segja sig úr lögum við Kína refsiverðar. Hörð viðbrögð urðu í Hong Kong og á alþjóðavettvangi og kínversk stjórnvöld hvött til að endurskoða ákvörðun sína.

Stjórnvöld í Beijing sögðu að lögin væru óhjákvæmileg svo koma mætti í veg fyrir hryðjuverkastarfsemi og glæpsamlegt athæfi í Hong Kong. Kveikjan að löggjöfinni voru mótmæli gegn yfirráðum Kína árið 2019.

Dómstóllinn í máli Tong komst að niðurstöðu eftir fimmtán daga réttarhöld. Sagði að Tong hafi vitað af merkingu fánans sem hann bar og að athæfi hans hafi beinst beint gegn lögreglumönnum. „Ákærði framdi verknaðinn með því markmiði að ógna samborgurum sínum og vekja athygli á pólítískum skoðunum sínum. Á fána Tong sagði „Frelsum Hong Kong, bylting samtímans.“

Samkvæmt lögum gæti Tong átt yfir höfði sér lífsstíðarfangelsi en refsing hefur ekki verið ákvörðuð.
 

Andri Magnús Eysteinsson