„Að tengja hamingju við frægð er misskilningur“

Mynd: The Atlas of Beauty / Facebook

„Að tengja hamingju við frægð er misskilningur“

27.07.2021 - 15:59

Höfundar

„Þetta er ævintýri sem ég get varla rifjað upp án þess að tárast. Frægðardraumur minn, hann splundraðist bara,“ segir fyrrum vandræðaunglingurinn og poppstjarnan Þórunn Antonía. Þegar hún bjó í London var hún mjög góð vinkona söngkonunnar Amy Winehouse. Hún segir að fólk hafi gert úr henni fíkil til að éta hana í sig og tæta, sem leiddi að lokum til bana hennar.

Star Crossed er plata Þórunnar Antoníu sem hún gerði með dyggri aðstoð Davíðs Berndsen og sló í gegn árið 2012. Plötunni má lýsa sem hreinræktaðri poppsmellaplötu og náðu margir smellirnir miklum vinsældum. Þórunn sendi fyrstu plötuna frá sér þegar hún var nítján ára og var hún samstarfsverkefni hennar og föður hennar Magnúsar Þórs Sigmundssonar tónlistarmanns. „Það sem er svo fallegt og gott við að eiga skapandi pabba er að hann tók eftir þessum hæfileika til að búa til melódíur og hann virti þetta í mér og hjálpaði,“ segir Þórunn sem kíkti ásamt Davíð Berndsen samstarfsmanni sínum í Geymt en ekki gleymt á Rás 2 til að rifja upp plötuna.

„Ég, villikötturinn, var send á Stuðla“

Þórunn hefur alltaf verið listræn, hún samdi ljóð, las mikið og grúskaði í tónlist frá því hún var pínulítil. Hún eignaðist kassettutæki sem hún notaði til að gera sínar eigin karókíútgáfur af ballöðum, með sæng yfir hausnum svo enginn gæti heyrt í henni. Þegar hún komst á unglingsár kveðst hún oft hafa verið til vandræða eftir áfall sem hún fékk. „Ég, villikötturinn, var send á Stuðla og annað unglingaheimili,“ rifjar hún upp. „Þá voru tráma-vísindin ekki jafn virt og þau eru í dag. Þegar maður lenti í áföllum sem barn eða unglingur á þessum tíma var maður bara stimplaður vandræðaunglingur, eða að maður væri í neyslu en það var mjög fjarri því.“

Rak augun í textana og kenndi henni að gera tónlist við

Þórunn fór á Stuðla og þaðan til föður síns sem rak augun í heilu stílabækurnar sem dóttirin hafði fyllt af lagasmíðum og textum. „Þær voru óteljandi,“ segir hún. „Hann byrjar að glugga í þetta og tekur textabrot héðan og þaðan og spyr mig hvort ég vilji ekki fara að gera tónlist við þetta.“ Þau byrjuðu að setja lögin saman og taka upp plötu. „Hann kennir mér einfaldar undirstöður í því að semja tónlist. Að það sé yfirleitt best að hafa hana einfalda og tala beint frá hjartanu í stað þess að flækja þetta með óeinlægni eða reyna að vera töff.“

Skjól Þórunnar hefur alltaf verið í skrifum. „Þetta kemur fólki kannski á óvart því ég hafði ofsalega gaman að því að fela mig á bak við poppstjörnuímyndina því þá fékk ég að vera í friði, sjálfið mitt,“ segir hún. „Ég hef rosalega gaman af þessum kontrasti og þegar áhugamál mín og innri karakter koma á óvart.“

Kom ekki til greina að vera sexí í bikiní

Þórunn skrifaði undir fyrsta plötusamninginn við Smekkleysu aðeins fjórtán ára þegar hún var í hip hop-hljómsveit sem lagði fljótlega upp laupana en hún var í nokkrum hljómsveitum eftir það. Þegar hún var fimmtán eða sextán ára var henni svo boðið að verða poppstjarna. „Þá var búið að setja rosalega mikið af peningum í eitthvað nýsköpunarverkefni hjá Thule Music og ég var fundin þar. Það átti að gera mig að risapoppstjörnu,“ segir Þórunn. Hún samdi og tók upp heilan helling af lögum en þegar kom að því að selja ímynd hennar runnu á hana tvær grímur. „Ég átti að vera í bikiní og sexí að syngja tónlistina,“ segir Þórunn sem hélt nú ekki. „Ég hef alltaf verið með rosalega sterk bein í lífinu síðan ég var pínulítil og þarna sagði ég: Nei, kemur ekki til greina. Ég er unglingur, ég er barn.“

Mál Britney Spears mansal

Hún lýsir poppbransa síðustu tíu til tuttugu ára sem mansali. „Mér finnst Britney Spears vera bara mansalsmál. Það er búið að exploita og notfæra sér barnæsku og kynþokka þessara stúlkna,“ segir Þórunn sem í dag er stolt af sjálfri sér að hafa verið þrjósk og staðið á sínu. „Ég fór í algjöra vörn, litaði á mér hárið svart og var bara: Nei, ég er ekki sexí fyrir ykkur.“ Að því leyti hafi verið gaman að gera Star Crossed þegar hún var orðin eldri og gat leikið sér með kynþokkann á eigin forsendum.

Maðurinn rekinn og öll böndin fóru með honum

Átján eða nítján ára skrifaði Þórunn undir annan plötusamning með bandi sem hét Honeymoon og flutti til London. Þau gáfu út eina plötu og hún fer í meistaranám í tónlistarbransanum. Hún vann í stúdíói sem hljómsveitin Radiohead á og með teymi sem kallaði sig The Away Team. Þeir höfðu heyrt plötu Þórunnar sem hún hafði skömmu áður gefið út með föður sínum og þeir kynna hana fyrir öðrum tónlistarmanni og gerðu þau saman plötu sem átti að verða mjög vinsæl. „Við vorum á risastórum auglýsingaspjöldum úti um alla London en þarna lentum við í því sem er bilaðslega góð reynsla að þegar maðurinn sem skrifar undir samninginn, eða maðurinn sem uppgötvaði hljómsveitina, var rekinn og þá fóru öll böndin með honum.“

Byrjaði í Junior Senior

Þetta var mikið áfall fyrir Þórunni, henni hafði verið lofað gulli og grænum skógum en var tilkynnt að ekkert yrði úr útgáfunni. Hún sat þó ekki lengi auðum höndum því hún fékk fljótlega símtal þar sem henni var boðið að verða bakraddasöngkona í hljómsveitinni Junior Senior. „Ég hitti Jeppe í einhverju partíi, sem var svona samkynhneigði björninn í bandinu. Við urðum bestu vinir á núll einni út af sameiginlegum húmor,“ segir Þórunn. Daginn eftir kom símtalið og Þórunn stökk á tækifærið. „Ég hef alltaf verið mikil ævintýramanneskja því ég er svo jákvæð. Og ég sé ekki stjörnuna í fólki heldur bara fólkið. Ef fólk er ekki gott eða skemmtilegt þá nenni ég ekki að tala við það.“

Hvað er Raggi í Botnleðju að gera hér?

Þórunn segir að það sé ríkur eiginleiki í Íslendingum að kippa sér ekki upp við að hitta stórstjörnur. „Við ölumst upp með Björk sem stórstjörnu og við sjáum hana bara úti í búð. Þegar ég var krakki var ég mikill Botnleðju-fan og ég labbaði einhverntíma inn í Spútnik og og bara: Ha, hvað er Raggi í Botnleðju að gera hér hann er stórstjarna?“ rifjar hún upp og hlær. „Stéttaskiptingin er svo lítil.“

Góð vinkona Amy Winehouse

Í London kynntist Þórunn söngkonunni Amy Winehouse sem varð ein af hennar bestu vinkonum. Þær kynntust áður en Amy varð stórstjarna og Þórunni þótti erfitt að horfa upp á það sem koma skyldi. „Það er ævintýri sem ég get varla rifjað upp án þess að tárast því frægðardraumur minn, hann splundraðist bara,“ segir Þórunn. „Að tengja hamingju við frægð er svo mikill misskilningur. Þarna sá ég bara svart á hvítu hvað heimsfrægð gerir við manneskju og vá, hún var étin lifandi af pressunni og fólki. Það var verið að reyna að gera úr henni fíkil til að geta étið hana í sig. Þetta var samtíminn þarna.“

Þórunn varði nokkrum árum með Junior Senior sem áttu einn stærsta smell í heimi, Move your feet. „Ég fékk að vera í bakgrunninum og hafa gaman. það var engin pressa á mér og það var geggjað,“ segir Þórunn. „Eftir það ævintýri fékk ég að skrifa undir samning við Atlantic Recorss með indíhljómsveit sem gerði progrokk þar sem ég var syntha-spilari og lagahöfundur. Ég eiginlega frontaði með söngvaranum sem var svona aðal.“ En eftir það ævintýri fékk Þórunn nóg.

Sagði henni að skemmta sér og rétti henni kókaín

Þá hafði sannarlega gengið á ýmsu. Hún gerði heila plötu með Beck og söng með Manic Street Preachers svo eitthvað sé nefnt. „En þegar ég sé hvernig heimurinn er að fara með Amy, ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um þetta. Tíðarandinn í tónlistarbransanum á þessum tíma var þannig að þegar ég skrifa undir stærsta plötusamninginn minn við Atlantic Records þá segir aðalmaðurinn við mig: Go have fun kids, og réttir mér grömm af kókaíni. Það að vera í neyslu var rosalega töff.“ Ímyndin sem margir unnu með var að vera úfinn og tættur og Þórunn segir að stjörnur hafi verið hvattar til að vera með fíkniefnavanda, sem henni tókst ekki að þróa með sér. „Þú veist, ég prófaði allt og gerði allan andskotann, ég viðurkenni það, en sem betur fer var ég aldrei fíkill því þetta hefðu verið kjöraðstæður til að missa vitið.“

„Vá hvað það er gaman að vinna með honum“

Þórunn flutti heim og bróðir hennar, Baldvin Þór rappari og hljóðmaður, hvatti hana til að hafa samband við Davíð Berndsen. Þórunn kolféll strax fyrir Davíð sem tónlistarmanni og sendi Davíð skilaboðin: „Hey, ef þig langar einhverntíma að gera tónlist með mér er ég ógeðslega til í það.“

Davíð sló strax til og byrjaði að semja á gítarinn hljóma sem hann sendi á Þórunni. Fyrsta lagið sem þau sendu frá sér, For your love, vakti mikla lukku og sat meðal annars á toppnum á vinsældalista Rásar 2. „Ég verð að segja að þetta var eins og ástarsamband, annað hvort virkar það strax eða ekki. Ég hugsaði bara strax: Vá hvað það er gaman að vinna með honum. Það er neisti á milli okkar tónlistarlega,“ segir Þórunn.

Ekki öll ástarsambönd eiga skilið að vera efniviður í plötu

Undirtektirnar komu bæði Þórunni og Davíð skemmtilega á óvart. „Okkur fannst lagið auðvitað báðum frábært en ég held ég hafi engan veginn gert mér grein fyrir vinsældunum,“ segir Þórunn. Þau héldu áfram að semja og gáfu svo út plötuna Star Crossed. Þórunn var á þessum tíma í stormasömu ástarsambandi sem hún segir hafa veitt sér mikinn innblástur við laga- og textasmíðarnar. „Stormasöm ástarsambönd og sorg hafa alltaf verið innblástur í tónlistinni minni. Ég er skilnaðarbarn og hef alltaf tengt ást við sorg og skilnaði og missi. Þetta er djúp alda að setja háfinn í,“ segir hún. „En ég trúi ofboðslega á fjölgreindir í hæfileikum. Sumir geta sest við píanó og þá kemur melódía en ég er þannig með texta að ef ég heyri hljóm þá kemur textinn yfirleitt aftur. Ég veit oft ekkert hvaðan þetta er að koma.“

Hún segir þó að of mikil sorg geri henni erfitt að semja og knýi hana til að loka á sköpunina, „af því hún er of sár. Ég hef undanfarin ár ekki verið að semja mikið,“ segir hún. „Ég lenti í ákveðnum sorgum sem gerðu mér erfitt að setjast niður með hljóðfærið og byrja að semja.“ Ekki öll sambönd eigi heldur skilið að verða uppsprettan að listaverki. „Maður lendir oft í ástarsamböndum sem særa mann það djúpt að manni finnst ekki eiga skilið að verða ódauðlegt í tónlist,“ segir hún.

Hulda Geirsdóttir ræddi við Þórunni Antoníu í Geymt en ekki gleymt á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hélt í vonina um annað og betra

Tónlist

Átta ár frá dánardegi Amy Winehouse