Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Á hendi yfirvalda hvort lík Johns Snorra verði sótt

27.07.2021 - 08:31
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Leitin að John Snorra Sigurjónssyni, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr í hlíðum K2 bar árangur í gær þegar lík þeirra fundust. Í tilkynningu frá fjölskyldu Johns Snorra segir að nú sé það alfarið á hendi pakistanskra yfirvalda hvort reynt verði að ná líkum þeirra niður af fjallinu.

John Snorri, Sadpara og Mohr höfðu freistað þess að ná tindi K2 að vetrarlagi en talið er að þeir hafi látist 5. febrúar síðastliðinn.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Elia Saikaly sem hefur tekið þátt í leitinni ásamt syni Muhammad Sadpara segir að lík Johns og Sadpara hafi fundist fyrir neðan hinn svokallaða flöskuháls á K2 en Mohr hafi fundist nær búðum 4. Miðað við þær upplýsingar séu vísbendingar um að þeir hafi verið á leið niður af toppi fjallsins þegar þeir létust.

Í samtali við fréttastofu AFP segir Ayaz Shagri hjá Alpaklúbbi Pakistan að unnið sé aðgerðaáætlun um flutning líkanna neðar í fjallið, þangað sem að hægt verði að sækja þau með þyrlu. 

„Það er mjög erfitt að flytja lík úr þessari hæð,“ segir Shagri en lík Johns Snorra og Sadpara eru í 7.800 metra hæð.

Persónulegir munir, myndavélar og tækjabúnaður munu líklega geta varpað betra ljósi á hvort John og félagar hafi náð tindi K2. Pakistönsk yfirvöld munu stýra þeim rannsóknum.

„Fjölskylda Johns vill þakka fyrir þann hlýhug, stuðning og umhyggju sem okkur hefur verið sýnd undanfarna mánuði og við viljum ítreka innilegar þakkir okkar til allra sem hafa tekið þátt í leitinni að þeim John Snorra, Ali og J Pablo.“, segir Lína Móey, eiginkona John Snorra