Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tíu létust í rútuslysi í Króatíu

26.07.2021 - 01:11
Emergency crews work at the site of a bus accident near Slavonski Brod, Croatia, Sunday, July 25, 2021. A bus swerved off a highway and crashed in Croatia early Sunday, killing 10 people and injuring at least 30 others, police said. (AP Photo/Luka Safundzic, SBonline)
 Mynd: AP
Minnst tíu létu lífið og tugir slösuðust þegar rúta fór út af þjóðvegi í Króatíu og valt á hliðina. Slysið varð um sexleytið að morgni sunnudags á þjóðveginum frá höfuðborginni Zagreb að landamærum Serbíu. Haft er eftir lögreglu að bílstjórinn hafi að öllum líkindum sofnað undir stýri.

Rútan var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Pristina, höfuðborgar Kósóvó. 67 farþegar voru í rútunni, þar á meðal nokkur börn, og tveir bílstjórar. Annar þeirra er á meðal hinna látnu. 44 slösuðust og voru þau öll flutt á nálæg sjúkrahús. Haft er eftir yfirlækninum á spítalanum í Slavonski Brod að átta þeirra séu alvarlega slösuð.

Bílstjórinn sem sofnaði undir stýri er í haldi lögreglu. Er hann sagður hafa viðurkennt að hafa dottað eitt augnablik, með þessum afleiðingum. Umferð um fjölfarinn þjóðveginn stöðvaðist í nokkrar klukkustundir á meðan lögregla, sjúkraliðar og aðrir viðbragðsaðilar voru að athafna sig á slysstað. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV