Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjórnendur búða meta sjálfir hvort bera þurfi grímu

26.07.2021 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Heilbrigðisráðuneytið hefur skerpt á reglugerð um grímuskyldu, þannig að ekki er lengur gerð krafa um vel loftræst rými, heldur eingöngu að hægt sé að uppfylla nándartakmarkanir. Ef ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli viðskiptavina er skylda að vera með grímu. Eigendur stærri verslana verða sjálfir að meta hvort nauðsynlegt er fyrir viðskiptavini að bera grímu.

Samkvæmt nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra er grímuskylda þar sem ekki er unnt að viðhalda eins metra nálægðartakmörkunum. Þeir sem reka stór verslunarrými telja því grímuskylduna ekki eiga við hjá sér, og hafa kallað eftir skýrari fyrirmælum frá stjórnvöldum. „Við skorum á stjórnvöld að setja grímuskyldu á alls staðar,“ segir Jón Símon Gíslason, verslunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ. Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, tekur í sama streng. „Það er alltaf svolítið erfitt fyrir okkur að ganga lengra en lögin kveða á um. En við erum að vinna fyrir viðskiptavininn, og þegar að við finnum að þetta sé það sem hann vill að þá finnst okkur það vera auðveldara,“ segir Halldór.

Því verður tekin upp grímuskylda í öllum verslunum Hagkaups frá miðnætti í kvöld. Krónan ætlar að fara sömu leið. „Við munum setja grímuskyldu á morgun,“ segir Jón Símon Gíslason, verslunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ. „Það hefur bara sýnt sig að fólk er ánægðara með grímuskylduna,“ segir Jón Símon.

Enda virðast flestir viðskiptavinir stórverslana bera grímu, þrátt fyrir að ekki sé skýrt kveðið á um það. 

Langflestir þeirra sem hafa veikst af Covid í þessari bylgju eru á aldrinum 18 til 29 ára. Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir þetta áhyggjuefni. „Þetta er svoldið að geisa hjá unga fólkinu, sem er að vinna í verslunum, þannig að við erum svolítið smeyk við þá stöðu sem er uppi núna.“

Brýnt sé að koma í veg fyrir hópsmit meðal starfsmanna, sem gæti jafnvel haft í för með sér lokanir á verslunum. „Við teljum okkur bera skyldu til þess að vernda þennan hóp eins og við mögulega getum,“ segir Sigurður.

Heilbrigðisráðuneytið gerði í dag tvær breytingar á reglugerð um samkomutakmarkanir. Þau ákvæði sem snúa að börnum ná nú öll til barna sem fædd eru eftir 2016. Grímuskylda er þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli fólks, en ekki er lengur gerð krafa um vel loftræst rými. 
Reglugerðin gildir sem fyrr til og með 13. ágúst.