Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óráðlegt að nota dróna til að eyða skýjum hér við land

26.07.2021 - 19:09
Innlent · drónar · Dubai · Góðviðri · Rigning · Umhverfismál · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Stjórnvöld í Dubai notuðu nýverið flugsveit dróna til að framkalla rigningu þegar veður gerðist óþægilega heitt og þurrt. Ýmsum gæti eflaust hugnast að stjórna veðrinu hér á landi og fjölga sólardögum með aðstoð rafmagnaðra dróna en veðurfræðingur segir að það sé ekki heppilegt í framkvæmd.

Vefsvæði Washington Post deildi í síðustu viku myndbandi frá veðurstofu Sameinuðu arabísku furstadæmanna þar sem aðgerðin var útskýrð. Þegar hitinn í Dubai nálgaðist 50 gráður á celsíus var gripið til þess ráðs að senda hóp dróna á loft og upp í ský. Þar gefa drónarnir frá sér rafstraum sem fær rakann í skýjunum til að þéttast og mynda nógu stóra regndropa til að ná til jarðar. Að öðrum kosti myndi þeir, vegna smæðar sinnar, gufa upp á leiðinni gegnum heitt loftið.

Er hægt að sundra skýjum yfir Íslandi?

Íslendingar, alltént þeir sem búa á suðvesturhorni landsins, hafa lítið við slíka tækni að gera enda nóg af skýjum og rigningu það sem af er sumri. Aftur á móti mætti vel hugsa sér dróna sem hæfu sig á loft í þeim tilgangi að sundra skýjum og senda þau á braut í stað þess að þétta þau. Það er þó ekki alveg svo einfalt í framkvæmd, eins og Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, útskýrir.

Aðstæður aðrar og erfiðara um vik

„Þetta er nú aðeins öðruvísi loftslag og staður sem við erum með hérna í Norður-Atlantshafinu heldur en sunnarlega á meginlandinu, og við erum með mikinn lægðagang og oft ansi þykk ský og mikið af vatnsdropum. Þannig að til að gera eitthvað sambærilegt þyrfti kannski gríðarlega mikið af rafhleðslu sem gæti þá aftur farið að hafa áhrif á fjarskipti eða eitthvað annað. Þannig að þetta er kannski ópraktískara hér en þar. Hér þarf bara eina lægð til að koma upp að landinu og breyta öllum aðstæðum,“ segir Páll Ágúst.

Þegar Páll Ágúst talar um að til þessa þyrfti gríðarlega mikla rafhleðslu má hugsa sem svo að við eigum þó nóg af rafmagni hér á landi. Það ætti því ekki að vera vandamál en vísindamaðurinn er fljótur að beina þessum hugleiðingum í farveg skynseminnar.

Gæti leitt til mikilla eldinga

„Það er nú þannig, eins og til dæmis með eldingar, að þegar mjög mikið af rafmagni eða mjög há spenna er notuð til þess að gera eitthvað svona, þá getur andrúmsloftið farið að leiða, sem veldur því að eldingum slær niður. Þannig að það er nú kannski ekki sniðugt að fara að búa til gríðarlega mikinn spennumun á milli jarðar og skýjanna. Það gæti framkallað eldingar, truflað fjarskipti og haft áhrif á eitthvað annað en markmiðið var.“

Páll Ágúst segir að veðurbreytiaðgerðir þeirra í Dubai séu engu að síður forvitnilegar og erlendir miðlar hafa fjallað um möguleikana sem í þeim felast fyrir ríki sem búa við álíka loftslag og Sameinuðu arabísku furstadæmin, ekki síst ef fjárráð þeirra eru í líkingu við það sem olíuríkin á Arabíuskaga hafa yfir að ráða. En það er víst ekki vænlegt til árangurs að reyna eitthvað í þá áttina hér við land.

Langþráð bjartviðri sunnan til í kortunum

Hann getur aftur á móti glatt sólþyrsta Sunnlendinga með því að veðurspáin fyrir næstu daga gerir ráð fyrir að sólin láti loks sjá sig á sunnanverðu landinu og það án þess að neinir drónar grípi inn í framvinduna.