Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metanframleiðsla annar ekki eftirspurn

26.07.2021 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: akureyri.is - RÚV
Forstjóri Norðurorku segir að það sé pólitísk og samfélagsleg spurning hvort vinna eigi meira metangas á Íslandi. Aukin eftirspurn hefur verið eftir gasinu á Akureyri síðustu vikur vegna fjölda ferðamanna þar og hleðslustöðin annar ekki þörfinni.

Metanbílum á Akureyri ekki að fjölga

Frá 2014 hefur Norðurorka unnið metan til að nota sem orkugjafa á bíla. Metanið hefur ekki náð mikilli útbreiðslu hér á landi en þó eru starfræktar metanhleðslustöðvar á tveimur stöðum hérlendis, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Reykjavík. 

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, segir þó að fjölgun metanbíla sé ekki aðalástæðan fyrir aukinni eftirspurn. „Fólk er greinilega mikið í sumarfríinu hérna norðan heiða og þess vegna eru vafalaust margir metanbílar í því. Síðan hefur líka fjölgað stærri bílum eins og strætó og vinnubílum m.a. okkar. Þannig að ég held að það sé ekki einkabílum að fjölga hér á svæðinu,“ segir Helgi.

Gasið var talið endast lengur

Metangasið á hleðslustöð Norðurorku er úr gömlum sorphaugum bæjarbúa í Glerárdal. Ef metanið væri ekki unnið úr haugnum myndi gasið úr honum streyma út í andrúmsloftið og valda þar skaða. Jákvæð umhverfisleg áhrif eru því töluverð. 

Þegar byrjað var að vinna metan úr sorphaugunum fyrir sjö árum var gert ráð fyrir að að gasið myndi nægja alla vega til ársins 2030. „Við gerðum spálíkan í upphafi til að reyna að meta hversu mikið haugurinn gæti framleitt þangað til hann deyr út, þannig. Sú spá var um 600.000 normalrúmmetrar á ári en nú erum við að nálgast 300.000 og margt bendir til að við séum komin í topp og náum ekki meira út úr honum,“ segir Helgi.

Rafmagnsbílar með forskot

Helgi segir að rafmagnsbílar hafi náð forskoti á aðra vistvæna bíla. Innviðir séu mun lengra komnir þegar kemur að rafmagnsbílum en metani. 

Helgi segir vel hægt að framleiða metan með stýrðri framleiðslu en metanið úr sorphaugnum hafi augljóslega minnkað mikið. „Það lítur ekki þannig út að við getum framleitt meira en þetta er þá orðið pólitísk spurning, svona samfélagsspurning hvort eigi að fara í frekar fjárfestingar í metanframleiðslu. Það er þá ekki einungis mál Norðurorku en það er spurning á hvers hendi það er,“ segir Helgi.