Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gagnaver falli vel að hugmyndum um grænan iðngarð

26.07.2021 - 08:43
epa03741835 A general view shows the inside of the server hall of Facebook in the city of Lulea, some 900 km north of Stockholm, Sweden, 12 June 2013. Facebook started processing data through its first server farm outside the United States. The company
Mynd tekin í gagnaveri Facebook í Svíþjóð. Mynd: EPA
Á iðnaðarsvæðinu á Bakka gæti risið gagnaver innan árs ef áætlanir fyrirtækisins GreenBlocks ganga eftir. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sótt um afnot af lóð á Bakka undir starfsemina.

Svæðið áður ætlað öðru fyrirtæki

Benóný Valur Jakobsson, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings segir jákvæðni ríkja í garð þessa verkefnis. Áður hafði Norðurþing þó lofað öðru fyrirtæki lóðinni. „Við erum náttúrulega bundin viljayfirlýsingu við Carbon Iceland um þetta svæði og við þurfum að láta þá vita áður en við getum samþykkt þessa úthlutun. Þeir hafa þrjá mánuði til að svara því,“ segir Benóný.
 

Fellur vel að hringrásarhugmyndum

Ef Carbon Iceland hyggst ekki nýta lóðina geti uppbygging gagnavers hafist og starfsemin verið komin í gang innan árs. Í byrjun myndi gagnaverið vera í gámaeiningum en Benóný vonar að fyrirtækið gæti síðar komið sér upp varanlegu húsnæði á Bakka. 

Starfsemi gagnaversins fellur vel að hugmyndum Norðurþings um að á Bakka byggist upp svokallað grænt iðnaðarsvæði. „Þetta getur mjög vel fallið að því módeli. Þarna verður til alveg gríðarlegur hiti og þekkist býsna víða erlendis orðið að þar sem eru gagnaver þar eru gróðurhús við hliðina á. Þetta fellur einmitt vel að þessari hringrásarpælingu með grænum iðngörðum,“ segir Benóný.

Ný störf skapist

Benóný segir að gagnaverið getið skapað ný störf á Bakka. „Það er talað um að þetta séu tvö til fjögur, staðbundin við verið. En svo gæti bæst við eitthvað í sambandi við öryggisgæslu. Við tölum um að að þetta séu u.þ.b. 6 störf.“