Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áhætta tekin með ferðalögum til útlanda

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Kórónuveirufaraldurinn gæti enn verið í vexti að mati staðgengils sóttvarnalæknis, sem segir að fólk taki áhættu með því að ferðast til útlanda. Hertar reglur taka gildi á landamærum á miðnætti.

Færri smit segja ekki alla söguna

Færri fóru í skimun um helgina en fyrir helgi. 71 Covid smit greindist innanlands í gær. Á föstudag greindust 95 með COVID og 88 á laugardag.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis segir þetta svipaðar tölur og fyrir helgi. Færri smit nú segja ekki alla söguna og því gæti smitum fjölgað næstu daga. Kamilla hvetur fólk til að forðast fjölmenni en það verði sjálft að ákveða hvort takmarka eigi ferðalög. 

Mæla ekki með ferðalögum til útlanda

„Við höfum ekki mælt með ferðalögum til útlanda á meðan að kórónuveirufaraldurinn er í jafn miklu gengi og verið hefur í Evrópu" segir Kamilla.  „Við þurfum að hafa í huga að þó að við séum ágætlega bólusett þá umgöngumst við fjölda óbólusetts fólks á svæði þar sem mikið er um smit. Þá erum við náttúrulega mjög útsett og hætta á að við smitumst og berum smit á milli eins og raun ber vitni. Og það er töluvert um það að fólk sé að ferðast til landa þar sem er mjög mikið um Covid. En nú erum við komin í þá aðstöðu að það er töluvert um Covid hér heima líka. En við kunnum að verjast því og höfum gert það áður".

Áhætta, en fólk ræður sinni forgangsröð

Nú er ljóst að fjölmargir hafa pantað sér t.a.m. sólarlandaferð til Spánar eða Kanaríeyja, sem eru rauð svæði. Í hvaða stöðu er það fólk núna?

„Það er minni smithætta fyrir bólusetta en óbólusetta, en ef að 10% af einstaklingum sem þú hittir fyrir þar sem þú ert staddur eru smituð þá er hætt við að þú verðir fyrir smiti. 10% er kannski svolítið há tala, en ef það er 1% þá þarftu ekki hitta nema 100 manns til að einn sé smitaður í hópnum. Þetta er áhætta en fólk ræður sinni forgangsröð" segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis. 

Hertar reglur á miðnætti í kvöld

Á miðnætti taka gildi nýjar og hertar reglur á landamærunum sem ríkisstjórnin samþykkti fyrir viku. Nú þurfa ferðalangar til Íslands, Íslendingar og útlendingar, sem eru bólusettir eða þeir sem eru með staðfesta fyrri sýkingu að framvísa ekki eldra en 72 klukkustunda gömlu neikvæðu Covid-prófi. Þetta getur annaðhvort verið PCR próf eða hraðpróf.  Þá er þeim tilmælum beint til þeirra sem búsettir eru hér á landi auk annarra sem hafa hér tengslanet að fara í sýnatöku strax eftir komuna til landsins, þó þeir séu einkennalausir.

Óbólusettir þurfa áfram að framvísa PCR-vottorðum sem eru ekki eldri en 72 klst. gömul. Auk þess þurfa þeir áfram að fara í tvær PCR-skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana.

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir