Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Opna þriðja farsóttarhúsið og sárvantar starfsfólk

25.07.2021 - 16:26
Mynd: Skjáskot / RÚV
Staðan á farsóttarhúsum er þung og það sárvantar starfsfólk, segir Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónamaður húsanna. Tvö farsóttarhús eru orðin full og það þriðja opnar í dag.

Yfir 130 manns eru nú í einangrun í tveimur farsóttarhúsum. Það þriðja opnar í dag þar sem Hótel Barón er til húsa. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, segir að staðan sé gífurlega þung. „Við erum í miklum vandræðum varðandi starfsfólk. Okkur vantar starfsfólk og erum að auglýsa eftir því inni á Alfreð meðal annars. Það er alveg ljóst að þetta mun bara þyngjast á næstu dögum og lítið annað sem við getum gert en bara að reyna að sinna þeim sem eru hjá okkur eins vel og hægt er. En það er farið að hökta aðeins í kerfunum hjá okkur,“ segir Gylfi. 

Sjö að sinna ríflega 130

Hann segir að í raun séu þau bara sjö, að sinna öllum sem eru í einangrun. „Það er náttúrulega komin þreyta í mannskapinn. Þetta er búið að taka okkur núna á annað ár, að berjast við þetta,“ segir Gylfi. Að hans sögn eru þau sem eru í einangrun í farsóttarhúsi séu mest Íslendingar undir þrítugu, þó einhverjir ferðamenn innan um.  Hann segir áhyggjuefni hversu mörg þeirra finni fyrir einkennum. „Varðandi heilsu þeirra þá er það nú bara satt að segja mjög mismunandi. Sumir finna fyrir mjög litlum einkennum en aðrir fyrir mjög miklum. Og það er ákveðið áhyggjuefni hversu margir eru farnir að finna fyrir miklum einkennum hjá okkur.“

„Þetta er farið að taka í, það er ekkert launungarmál. Og við sem höfum staðið þessa plikt á annað ár, við erum orðin þreytt. Svo sem eins og landsmenn allir. En við verðum bara að halda áfram og vonandi verður veturinn okkur góður í staðinn,“ segir Gylfi. 

Hlýða má á viðtal við Gylfa Þór í spilaranum hér að ofan.