Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hörmungar og versta efnahagskrísa síðustu 150 ára

25.07.2021 - 20:30
Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP
Pólitískur óstöðugleiki og eitt versta efnahagshrun síðustu 150 ára eru aðeins hluti þess sem íbúar Líbanons glíma við. Gjaldmiðillinn er svo gott sem ónýtur og meira en helmingur þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum.

Beirút, höfuðborg Líbanons, er stundum kölluð París Mið-Austurlanda. Landið er þekkt fyrir ljúffengan mat, stórkostlegt landslag og langa og merkilega menningarsögu. En síðustu ár hafa leikið Líbanon grátt. Fjölmenn mótmæli hófust í október 2019, þá var efnahagsástandið orðið afar bágborið - svo kom heimsfaraldur og sprengingin við höfnina í Beirút sem gerðu slæmt ástand enn verra.

Eitt af hverjum tíu börnum sent út að vinna

Bilið á milli samfélagshópa breikkar stöðugt, þau sem hafa aðgang að erlendri mynt lifa eins og kóngar á meðan þau sem fá launin sín í líbönskum lírum hafa ekki lengur efni á nauðsynjum. „Það er mikil dýrtíð; við förum mjög sparlega með allt, eins og það sé gull,“ segir Marie Daccache markaðsráðgjafi á meðan hún sker niður rauðlauk. Í Líbanon búa um sex milljónir, meira en helmingur þeirra lifir nú undir fátæktarmörkum. „Við erum vön margskonar erfiðleikum í Líbanon en aldrei hefur verið svona hart í ári ekki einu sinni í stríðinu,“ segir Bechara Daccache eiginmaður Marie. 

Staðan er orðin slæm hjá fólki sem hingað til hefur verið ágætlega vel sett. Samkvæmt nýlegri úttekt barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna hefur eitt af hverjum tíu börnum verið sent út að vinna. Hjálparsamtök lýsa því að fyrir árið 2019 hafi meirihluti skjólstæðinga leitað eftir fjárstuðningi fyrir skurðaðgerðir og aðra læknishjálp. Nú er langmest beðið um mat, lyf og mjólk fyrir ungabörn. 

Örvænting og reiði aukast dag frá degi

Viðvarandi stjórnarkreppa hefur ekki orðið til þess að bæta ástandið. Í níu mánuði hefur bráðabirgðaríkisstjórn verið starfandi eftir að forsætisráðherrann hrökklaðist frá völdum. Eftir því sem örvæntingin eykst færist meiri harka í mótmæli almennings. Sumir mótmælendur eru hættir að kyrja vanhæf ríkisstjórn og farnir að kalla eftir höfði ráðamanna. 

A mother whose son was killed during last year's massive blast at Beirut's seaport, weeps as she raises her hand painted red to represent blood, outside the home of caretaker Interior Minister Mohamed Fehmi, in Beirut, Lebanon, Tuesday, July 13, 2021. Family members are angry with Fehmi because he rejected a request by the judge investigating the explosion to question Maj. Gen. Abbas Ibrahim, who is one of Lebanon's most prominent generals and heads of the General Security Directorate. (AP Photo/Bilal Hussein)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Aðstandendur þerra sem fórust í sprengingunni krefja yfirvöld svara.

Samkvæmt Alþjóðabankanum er efnahagskrísan í Líbanon sú versta í heiminum síðustu 150 ár. Verðbólgan er komin yfir 100 prósent og líbanska líran hefur misst 90 prósent af verðgildi sínu. Líbanon reiðir sig að miklu leyti á innflutning. Ríkið er nánast gjaldþrota og matur, lyf og eldsneyti eru af skornum skammti. Síðustu daga og vikur hafa langar raðir myndast við bensínstöðvar. „Ég er skurðlæknir. Ég þarf að vera mættur á spítalann en kemst ekki þar sem bílinn er bensínlaus,“ sagði einn þeirra fjölmörgu sem beið í röð eftir bensíni í Beirút. 

Tvö hunduð og sjö fórust í sprengingunni í Beirút fyrir rétt tæpu ári og enn hefur ekki verð leitt til lykta hvað nákvæmlega gerðist. Aðstandendur þeirra sem fórust hafa fengið sig fullsadda á hvað rannsókninni miðar hægt og hafa komið saman til mótmæla við heimili starfandi innanríkisráðherra eftir að hann hafnaði beiðni dómara um að yfirheyra hershöfðingja sem er yfirmaður almannavarna. „Þetta kemur ekki bara Mohamed Fhemi ráðherrra við því á eftir honum koma fleiri og fleiri. Við mótmælum við Heimili þeirra allra,“ sagði Mohieddin Lattakani, einn mótmælenda en hann missti móður sína í sprengingunni.