Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þúsundir mótmæltu sóttvarnaaðgerðum í Ástralíu

24.07.2021 - 13:11
epa09361929 Protestors are seen during the 'World Wide Rally For Freedom' anti-lockdown rally in Brisbane, Australia, 24 July 2021. People demonstrated in several Australian cities against the measures tio curb the spread of COVID-19.  EPA-EFE/DARREN ENGLAND AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Tugir mótmælenda voru handteknir í Sydney í Ástralíu dag þegar fólk kom saman til að mótmæla hertum sóttvarnaaðgerðum. Yfirvöld í Nýja-Suður-Wales gagnrýna framgöngu mótmælenda harðlega, enda hafi þeir verið að brjóta sóttvarnareglur.

COVID-smitum hefur fjölgað jafnt og þétt í suður- og austurhluta Ástralíu síðustu daga og vikur, einkum í Nýja-Suður-Wales, þar sem hátt í tvö þúsund hafa greinst í þeirri bylgju sem nú stendur yfir. Yfirvöld þar ákváðu fyrr í vikunni að herða aðgerðir, meðal annars til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar ferðir fólks.

Mótmælendur brutu sóttvarnareglur

Ekki eru allir sáttir við þetta. Þúsundir mótmæltu hertum aðgerðum á götum úti í tveimur stærstu borgum Ástralíu - Sydney og Melbourne. Mótmælin voru gerð í nafni frelsis einstaklingsins. Lögreglan skarst fljótlega í leikinn, enda voru mótmælendur að brjóta ákvæði í sóttvarnareglum sem kveða á um bann við ferðum að nauðsynjalausu.

Mótmælendur köstuðu meðal annars vatnsflöskum og pottaplöntum að lögreglumönnum. Að sögn lögreglu voru 57 handteknir í Sydney og næstum hundrað sektir gefnar út.

Ráðherra segir borgina ekki ónæma fyrir heimskingjum

Yfirvöld í Nýja-Suður-Wales hafa gagnrýnt framgöngu mótmælenda harðlega. David Elliott lögreglumálaráðherra í héraðinu sagði meðal annars að það væri ljóst að Sydney væri ekki ónæm fyrir heimskingjum.

Til stendur að mótmæla aðgerðum víða í Evrópu í dag. Í Frakklandi á bæði að mótmæla takmörkunum og krefjast þess að skylt verði að fara í bólusetningu. Þá er búist við mótmælum í Róm, London og Aþenu.