Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Táragasi beitt í mótmælum í Frakklandi

24.07.2021 - 19:09
epa09362525 Head of right-wing party 'Les Patriotes' Floriant Philippot (C) addresses thousands of protesters gathered at Place Trocadero near the Eiffel Tower during a demonstration against the COVID-19 sanitary pass which grants vaccinated individuals greater ease of access to venues in France, in Paris, France, 24 July 2021. France has extended the use of its Vaccinal Passeport to cultural place, transport, restaurants, etc, after Covid-19 infections soared this week because of the more infectious Delta variant.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmælt var víða um Frakkland í dag vegna lagafrumvarps sem nú liggur fyrir franska þinginu. Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu, sem beitti meðal annars táragasi.

Frumvarpið umdeilda kveður á um að framvísa þurfi vottorði um bólusetningu eða neikvætt COVID-próf á opinberum stöðum, til dæmis veitingastöðum og kvikmyndahúsum. Þeir sem eru á móti því telja að með þessu sé verið að þvinga fólk í bólusetningu.

Í París fóru mótmælin friðsamlega fram í Trocadero. En það gegndi öðru máli um Bastillutorgið. Þar sýna sjónvarpsmyndir meðal annars þegar lögreglumönnum er hent af vélhjóli og svo stól kastað í einn þeirra. Lögreglan svaraði þessu með því að beita táragasi.

Frumvarpið er lagt fram vegna fjölgunar smita, en stærstur hluti fullorðinna Frakka er fullbólusettur. Það hefur þegar verið samþykkt í neðri deild þingsins, og verður rætt í öldungadeildinni nú um helgina. Kannanir sýna að meirihluta Frakka er hlynntur þessum ráðstöfunum.
 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV