Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Líbanir illa í stakk búnir fyrir næstu COVID-bylgju

24.07.2021 - 09:17
epa08971205 Health staff attends to a Covid-19 patient in the new Covid-19 emergency care tent, at the Saint Georges Hospital of Hezbollah in Beirut, Lebanon, 28 January 2021. Lebanon on 07 January began a complete 25-day closure nationwide, which was extended by the Supreme Defense Council until 08 February, to curb the infections coronavirus Covid-19.  EPA-EFE/NABIL MOUNZER
 Mynd: EPA
Djúp efnahagskreppa er í Líbanon og staðan á spítölum því erfið. Þegar er skortur á lyfjum og heilbrigðisstarfsfólk hefur flutt úr landi, auk þess sem rafmagnið fer oft af.

„Allir spítalar eru verr undirbúnir núna en þeir voru fyrir bylgjuna í byrjun árs,“ hefur AP fréttastofan eftir Firass Abiad, framkvæmdastjóra Rafik Hariri, háskólasjúkrahússins, stærsta ríkisspítalans í landinu. „Við fáum rafmagn í tvo til þrjá tíma á dag, annars þurfum við að reiða okkur á rafala. Ofan á áhyggjur af því að þeir brenni út þarf stöðugt að vera á höttunum eftir olíu,“ segir hann. Hún er af skornum skammti og verðið hefur hækkað um 80 prósent síðan í júní. 

Skortur er á lyfjum af ýmsu tagi á spítalanum. Abiad segir að suma daga vanti sýklalyf, og aðra daga vanti deyfingar- og svæfingarlyf. Stundum þurfi að grípa til þess ráðs að biðja aðstandendur sjúklinga að kanna hvort lyf séu til á öðrum sjúkrahúsum eða í apótekum. 

Smitum í Líbanon fækkaði í vor en síðustu vikur hefur þeim fjölgað aftur. Margir brottfluttir Líbanir hafa komið til baka í heimsókn til vina og ættingja í sumar. Á fimmtudag voru 98 greindir með veiruna á flugvellinum í Beirút. Abiad segir að það myndi verða skelfilegt ef sú bylgja sem nú er að hefjast verði jafn skæð og sú sem skók landið í byrjun árs.