Hátíðum aflýst, frestað, flýtt eða breytt um land allt

Mynd með færslu
Frá hátíðinni Ein með öllu á Akureyri 2019 Mynd: Hilmar Friðjónsson - Akureyrarbær

Hátíðum aflýst, frestað, flýtt eða breytt um land allt

24.07.2021 - 06:54

Höfundar

Þær samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi á miðnætti valda því að fjölmennum viðburðum sem halda átti næstu daga verður ýmis aflýst eða frestað um óákveðinn tíma, en öðrum verður breytt eða þeim jafnvel flýtt. Frá miðnætti í kvöld mega ekki fleiri en 200 koma saman á einum stað. Forsvarsmenn nokkurra fjölmennra samkoma hafa brugðist við þessum tíðindum með ýmsum hætti. Hér að neðan er skautað yfir það helsta.

Akureyri -- Ein með öllu

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu, sem halda átti á Akureyri um verslunarmannahelgina, fellur niður. Í tilkynningu frá Akureyrarbæ segir að hátíðinni hafi verið aflýst en að fáeinir smærri viðburðir verði leyfðir, með fjöldatakmörkunum og stífum sóttvarnareglum þó. Þar á meðal er fjallahlaupið Súlur Vertical, enda brjóti það ekki í bága við boðaðar fjöldatakmarkanir og nándarreglur.

Í tilkynningunni er haft eftir Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra að hún sé mjög uggandi yfir þróun faraldursins síðustu vikur og að ekki sé hægt að stefna þúsundum manna saman í bænum við núverandi aðstæður. „Við viljum allt til þess vinna að halda útbreiðslu Covid-19 í skefjum og þjóðin verður að sýna samstöðu í þessari baráttu. Við höfum gert það áður og við getum það aftur," segir bæjarstjórinn.

Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmóti UMFÍ, sem halda átti á Selfossi um næstu helgi, hefur líka verið aflýst vegna kórónaveirufaraldursins, annað árið í röð. Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmótsins, segir ákvörðunina afar þungbæra og erfiða. Fólk sé hreinlega með tárin í augunum, enda hafi margir lagt hart að sér til að gera mótið að veruleika „og mörg börn búin að áforma að njóta helgarinnar með fjölskyldum sínum og vinum." er haft eftir Þóri í yfirlýsingu. Í ljósi aðstæðna verði þó að sýna ábyrgð og samstöðu á þessum óvissutímum og taka þátt í baráttunni.

Þjóðhátíð í Eyjum

Hljóðið er líka þungt í Vestmanneyingum, enda ljóst að engin Þjóðhátíð verður haldin þar um verslunarmannahelgina. Þjóðhátíðarnefnd hefur þó ekki gefið upp alla von um að hátíðin verði haldin í ár þótt síðar verði, að sögn formanns hennar, Harðar Orra Grettissonar. Hann lýsir vonbrigðum með að ekki hafi verið leitað annarra leiða en að banna fjöldasamkomur, svo sem að krefjast bólusetningarvottorða og/eða neikvæðra PCR-prófa.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri tekur í sama streng og segist í færslu á Facebook vera „döpur, svekkt og pirruð." Hún segir ákvörðun stjórnvalda gríðarleg vonbrigði og að það vanti sannfærandi rökstuðning fyrir henni. Hún er þó ákveðin í að leggja ekki árar í bát, minnir á að reglurnar gildi til 13. ágúst og spyr: „Er ekki borðleggjandi að fresta þjóðhátíð en slá hana ekki af?" 

Berjadagar blásnir af 

Í Ólafsfirði átti að halda tónlistar- og listahátíðina Berjadaga um verslunarmannahelgina, en sú ágæta hátíð hefur verið blásin af í ljósi tíðinda gærdagsins. 

Mærudagar og Bræðsla halda áfram en Druslugöngu frestað

Skipuleggjendur nokkurra hátíða og viðburða sem ýmist byrjuðu í gær eða áttu að hefjast í dag hafa líka þurft að bregðast við þeim breytingum sem verða á miðnætti.

Á Húsavík standa Mærudagar sem hæst og þeim verður fram haldið til miðnættis í kvöld. Í tilkynningu Kristjáns Þórs Magnússonar sveitarstjóra á vef Norðurþings segir að nokkrum viðburðum þar sem ljóst var að stórir hópar fólks myndu koma saman innan dyra hafi verið aflýst. Auglýst dagskrá á hátíðarsvæðinu standi hins vegar óhögguð í dag, enda verði allri dagskrá þar lokið fyrir miðnætti. Eru Húsvíkingar og hátíðargestir hvattir til að sýna ábyrgð og gott fordæmi með því að haga sér í samræmi við stöðu faraldursins og hættuna á að smitast. 

Í Reykjavík verður engin Drusluganga gengin í dag eins og til stóð, þrátt fyrir að fjöldatakmarkanir taki ekki gildi fyrr en á miðnætti. Í tilkynningu skipuleggjenda segir að henni hafi verið frestað um óákveðinn tíma, enda þyki þeim „mikilvægt að fylgja fyrirmælum stjórnvalda og sýna þá samfélagslegu ábyrgð að gera það sem í [þeirra] valdi stendur til að koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu smita." 

Á Borgarfirði eystra var brugðist við yfirvofandi takmörkunum með því að flýta ákveðnum viðburðum á Bræðslunni. Þannig var FM Belfast með DJ-partý í Fjarðarborg í gærkvöld og nótt í stað þess að leika fyrir dansi eftir aðaltónleikana í kvöld. Þeim tónleikum hefur líka verið flýtt um klukkustund og hefjast því klukkan 18.00 svo hægt verði að ljúka þeim fyrir miðnætti.  

Hinsegindögum verður ekki aflýst

Hinsegindagar hefjast 3. ágúst og standa til 8. ágúst. Á Facebook-síðu Hinsegindaga er tekið skýrt fram að þeim verði ekki aflýst hvað sem takmörkunum og reglugerðum líður, heldur verði dagskránni einfaldlega hagrætt í takt við það sem verða vill.

Takmarkanirnar hafa hins vegar engin áhrif á Fiskidaginn mikla á Dalvík, því skipuleggjendur hans höfðu vaðið fyrir neðan sig og lýstu því yfir strax í vor, að ekki væri ráð að boða til fjöldasamomu þar í sumar miðað við þá óvissu sem ríkti vegna farsóttarinnar, og fólki yrði næst boðið í fiskimat á Dalvík á næsta ári. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Helstu takmarkanir og reglur sem tóku gildi á miðnætti

Íþróttir

Unglingalandsmóti UMFÍ aflýst

Innlent

Kemur til greina að halda þjóðhátíð síðar í ágúst

Innlent

200 manna fjöldatakmarkanir og barir loka á miðnætti