Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grátleg töp íslensku þjálfaranna

epa09361307 Germany players and coaching staff react during the Men's Preliminary Round Group A match between Germany and Spain during the Handball events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Yoyogi National Gymnasium arena in Tokyo, Japan, 24 July 2021.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Grátleg töp íslensku þjálfaranna

24.07.2021 - 08:53
Alfreð Gíslason og Aron Kristjánsson biðu báðir ósigur með sínum liðum í fyrstu umferð handboltakeppninnar á Ólympíuleikunum í dag. Alfreð og Þýskaland biðu ósigur gegn Spáni og Aron og Bahrein töpuðu gegn Svíþjóð.

Flestir bjuggust við öruggum sigri Svíþjóðar gegn Bahrein í dag. Svíar unnu vissulega en því fór fjarri að sigurinn væri öruggur. Bahrein var yfir nánast allan leikinn en Svíar skoruðu tvö síðustu mörkin og unnu 32-31.

Alfreð Gíslason og hans menn í þýska liðinu spiluðu svo æsispennandi leik gegn Evrópumeisturum Spánar. Forystan gekk liðanna á milli allan leiktímann og Þjóðverjar voru í góðri stöðu þegar 90 sekúndur voru eftir. Þá gerðu þeir hins vegar dýrmæt mistök í tvígang og Spánverjar skoruðu tvö síðustu mörkin og unnu með 28 mörkum gegn 27.

Fyrr í morgun unnu Norðmenn svo Brasilíu, 27-24, og Frakkland lagði Argentínu, 33-27. Síðar í dag mætast svo Portúgal og Egyptaland og svo taka lærisveinar Dags Sigurðssonar í Japan á móti heimsmeisturum Dana. Sá leikur er klukkan 12:30 og er sýndur beint á RÚV.