Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjöldi í gleðigöngu – mótmæla umdeildum lögum

24.07.2021 - 14:38
epa02211928 A participant holds a rainbow flag during the 11th annual Gay Pride parade in the centre of Lisbon, Portugal, 19 June 2010.  EPA/ANDRE KOSTERS
Mynd úr safni. Mynd: EPA - LUSA
Fjöldi fólks kom saman í Búdapest í Ungverjalandi í dag þar sem nú fer fram gleðiganga. Nýlega tóku lög gildi í landinu sem þykja þrengja mikið að réttindum hinsegin fólks. Samkvæmt nýju lögunum er bannað að birta myndir af hinsegin fólki í bókum og sjónvarpsefni fyrir 18 ára og yngri.

 

Búist var við að þúsundir myndu mæta í gönguna til að sýna stuðning sinn við hinsegin samfélagið og eins til að mótmæla lögunum. Ungverjaland er eitt aðildarríkja Evrópusambandsins og hefur framkvæmdastjórn þess höfðað mál gegn ungverska ríkinu vegna laganna. Viktor Orban, forsætisráðherra landsins, hefur verið við völd síðan árið 2010, og hefur sífellt hert að réttindum hinsegin fólks í baráttu sinni við að tryggja í sessi hefðbundin kristin gildi, að því er segir í frétt Reuters.

Ungverskir ráðherrar segja að lögunum sé ekki beint gegn hinsegin fólki heldur sé ætlunin að vernda börn. Skipuleggjendur göngunnar í dag hafa hvatt fólk til að segja hug sinn og berjast gegn tilraunum þeirra sem þeir kalla „valdahungraða stjórnmálamenn“, til að kúga hinsegin fólk. Í staðinn fyrir að vernda minnihlutahópa sé ríkisstjórnin að jaðarsetja hinsegin fólk.

Fjölmargir hafa gagnrýnt stefnu Orbans og samkvæmt skoðanakönnun í síðasta mánuði þá eru 46 prósent Ungverja hlynnt hjónaböndum samkynhneigðra. Mannréttindasamtök telja að lögin eigi eftir að hafa miklar afleiðingar fyrir hinsegin samfélagið í Ungverjalandi.

Fjörutíu erlend sendiráð og menningarstofnanir sendu á mánudag frá sér sameiginlega yfirlýsingu til stuðnings gleðigöngunni. Þarna á meðal voru sendiráð Bandaríkjanna, Þýskalands og Bretlands.

Forsætisráðherra Ungverjalands tilkynnti í vikunni að hann ætli að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin umdeildu.