Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjóla Hrund skákaði Þorsteini Sæmundssyni

24.07.2021 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, hafði betur í oddvitakjöri flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður sem lauk í dag.

Fjóla hlaut 58% greiddra atkvæða, en Þorsteinn Sæmundsson, núverandi oddviti flokksins, fékk 42%. 

Allir flokksmenn Miðflokksins í kjördæminu gátu kosið. Í tilkynningu frá Miðflokknum segir að kjörsókn hafi verið 90% en ekki kemur fram hve margir eru á kjörskrá.

Stillt er upp á lista hjá Miðflokknum.

Fjóla og Þorsteinn höfðu bæði sóst eftir að leiða lista flokksins í kjördæminu, en uppstillingarnefnd ákvað í síðustu viku að leggja fram lista þar sem Fjóla skipaði efsta sætið og Þorsteinn var hvergi sjáanlegur.

Listinn var hins vegar felldur á félagsfundi, að tillögu Þorsteins sem mun hafa safnað liði til fundarins. Í kjölfarið ákvað uppstillingarnefnd að boða til ráðgefandi atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna í kjördæminu um hvort þeirra skyldi skipa efsta sætið.

 Uppstillingarnefndin mun leggja fram framboðslista flokksins, með Fjóla í stafni, á félagsfundi sem haldinn verður í Hamraborg á mánudag klukkan 20.

Að því gefnu að fundurinn samþykki nýjan lista munu konur skipa oddvitasæti Miðflokksins í báðum Reykjavíkurkjördæmunum, á kostnað sitjandi þingmanna flokksins sem þó sóttust eftir endurkjöri.

Í Reykjavíkurkjördæmi norður leiðir Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir, lögfræðingur og sáttamiðlari, listann en Ólafur Ísleifsson, þingmaður flokksins, er ekki á lista.