Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ferðalög flóknari nú þegar græni liturinn víkur

24.07.2021 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Ísland mun missa græna litinn á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem gefið verður út á fimmtudaginn kemur. Aðeins er spurning hvort landið verður gult eða rautt. Ef fleiri en 280 smit greinast hér á landi um helgina verður landið rautt, annars gult.

Breytingin er vís til að hafa áhrif, bæði á þá Íslendinga sem hyggja á ferðalög, og eins ferðaþjónustuna á Íslandi.

Mörg ríki leggja lista stofnunarinnar til grundvallar þegar litið er til takmarkana sem gilda um ferðalanga. Þannig gilda vægustu takmarkanir um lönd á græna listanum. 

Auk þess að valda Íslendingum í ferðahug óþægindum, kann nýja litaflokkunin að hafa áhrif á ferðavilja útlendinga, sem vilja síður sæta sóttkví eða skimunum þegar heim er komið.

Vert er þó að taka fram að mörg ríki nota sín eigin skilyrði til að skipta ríkjum í áhættuflokka og hafa aðeins lista Sóttvarnastofnunarinnar til hliðsjónar. Evrópulönd, sem eru rauð á lista Sóttvarnastofnunarinnar, teljast til dæmis aðeins gul í Danmörku og Bretlandi.

Ísland hefur verið grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu um nokkurt skeið. Það breytist á fimmtudag.
 Mynd: Sóttvarnastofnun Evrópu
Ísland hefur verið grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu um nokkra hríð. Svo verður ekki í næstu viku.

Á hverju byggir flokkunin?

Sóttvarnakortið er sem fyrr segir uppfært vikulega, á fimmtudögum. Þá er litið til smitstöðu síðustu tveggja heilu vikna, þ.e. frá mánudegi til sunnudags tveimur vikum síðar. Næsta uppfærsla kortsins tekur því til smita á tímabilinu 12.-25. júlí.

Til þess að haldast grænt þarf nýgengi veirunnar að vera undir 75. Með nýgengi er átt við fjölda smita á hverja 100 þúsund íbúa á umræddu 14 daga tímabili.

Fyrir eyju með um 370 þúsund íbúa þýðir það færri en 280 smit. Litið er til allra smita, bæði innanlands og á landamærum. Þegar hafa frá 12. júlí greinst 409 smit innanlands og 50 á landamærum og því ljóst að græni liturinn er úr sögunni. Næsti litur þar á eftir er gulur.

Lönd flokkast síðan rauð á kortinu ef nýgengi veirunnar er yfir 200. Mörkin eru að vísu lægri ef hlutfall jákvæðra sýna er sérlega hátt (yfir 4%), en ætla má að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því á Íslandi.

Nýgengi upp á 200 jafngildir um 740 smitum. Þar sem þegar hafa greinst 459 smit á tímabilinu, er ljóst að ef fleiri en um 280 smit greinast innanlands á næstu tveimur dögum fer Ísland upp fyrir þau mörk.

95 greindust innanlands í gær og einn á landamærum, en metfjölda smita þyrfti til að Ísland yrði rautt á næsta korti.

Meiri líkur á rauðu í þarnæsta korti

Sem fyrr segir byggir kort Sóttvarnastofnunarinnar á stöðu faraldursins yfir tveggja vikna tímabil. Þótt mikill fjöldi smita hafi greinst undanfarna viku, hjálpar það Íslandi að lítið sem ekkert var um smit vikuna þar áður. Hún dregur landið niður.

Sé litið eina viku fram í tímann, það er á þarnæsta kort Sóttvarnastofnunarinnar, verður staðan hins vegar svartari enda dettur smitlitla vikan þá út.

Aðeins þurfa 383 smit að greinast hér á landi á næstu níu dögum, þ.e. út næstu viku, til að landið verði rautt á þeim lista sem gefinn verður út í kjölfarið, fimmtudaginn 5. ágúst. Það jafngildir um 43 smitum á dag.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV