Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég geng samt alveg sáttur frá borði“

Mynd: Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson / RÚV

„Ég geng samt alveg sáttur frá borði“

24.07.2021 - 08:28
„Ég er svosem alveg sáttur. Ég hefði samt auðvitað viljað gera betur. Ég hefði verið ánægður með 575-576 stig, eitthvað svoleiðis. En ég skaut 570 núna. En ég geng samt alveg sáttur frá borði,“ sagði skyttan Ásgeir Sigurgeirsson eftir að hafa lokið keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Ásgeir reið fyrstur Íslendinga á vaðið þegar hann keppti í forkeppni loftskammbyssuskotfimi af 10 m færi. Ásgeir fékk 570 stig af 600 mögulegum og endaði í 28. sæti af 38 keppendum. Átta efstu komust í úrslit. „Ég byrjaði vel og endaði vel en það var miðjan sem var svolítið léleg bara. Einbeitingin fór eiginlega bara á þeim tíma,“ sagði Ásgeir við RÚV eftir keppni á Asaka skotsvæðinu í Tókýó í dag.

Í forkeppninni hafa keppendur eina klukkustund og fimmtán mínútur til að hleypa af 60 skotum. Þeir standa því nokkurn veginn í sömu sporunum allan þann tíma. „Yfirleitt er það ekkert mál. En núna hafði ég bara mánuð til að undirbúa mig fyrir þessa leika. Þannig að þolið var svona aðeins farið að segja til sín. Ég var orðinn frekar þreyttur í lokin,“ sagði Ásgeir sem fékk ekki staðfestan þátttökurétt inn á leikana fyrr en í lok júní.

Stressaður í byrjun og hugsaði þá um öndun og hjartslátt

En hvað fór í gegnum hugann hjá Ásgeiri á meðan keppni stóð í dag? „Bara allt eiginlega. Maður reynir að hugsa ekki um loka niðurstöðu. Ég reyni bara að hugsa um eitthvað sem kemur mér í gott skap og svo að halda einbeitingu. Svo reynir maður bara að taka eitt skot í einu.“

epa09361009 Asgeir Sigurgeirsson of Iceland competes during the 10m Air Pistol Men's Qualification of the Shooting events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Camp Asaka in Nerima, Tokyo, Japan, 24 July 2021.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA
Ásgeir í keppninni í Tókýó í dag.

En það var að ýmsu að huga fyrir Ásgeir á meðan keppni stóð. „Já, eins og í byrjun var ég mjög stressaður. Þannig þá var maður svona að reyna að anda rólega og ná hjartslættinum niður. Svo tókst það eftir svona fyrstu sex skotin og þá hélt ég bara áfram.“

Miklu erfiðara en í London 2012

Ólympíuleikarnir í Tókýó voru aðrir Ólympíuleikarnir sem Ásgeir keppir á. Hann var einnig meðal keppenda í London 2012. Þá hafnaði hann í 14. sæti með 580 stig í forkeppninni, aðeins þremur stigum frá sæti í úrslitum. En hvernig ber hann leikana í London og Tókýó saman? „Þetta var miklu erfiðara núna heldur en í London. Þrátt fyrir að þetta væri verra skor í dag þá er ég bara ekki í eins góðu formi. Það var einhvern veginn erfiðara að standa í svona langan tíma, bæði líkamlega og andlega. En þetta var svosem alveg gaman líka,“ sagði Ásgeir.

„Þetta var allt í lagi skor hjá mér í dag. Það þurfti 578 stig inn í úrslit og það er frekar lágt skor fyrir svona stórmót, sérstaklega svona sterkt,“ sagði Ásgeir sem taldi kórónuveirufaraldurinn hafa sett strik í reikning allra keppenda. „Já, alveg hiklaust. Sá sem vann silfrið í Brasilíu fékk 564 stig. Þannig það voru allir í einhverju brasi,“ sagði Ásgeir sem gengur sáttur frá borði í Tókýó.