Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Branson og Bezos teljast ekki til geimfara

24.07.2021 - 05:21
Virgin Galactic founder Richard Branson, left, sprays champagne to crew member Beth Moses while celebrating their flight to space from Spaceport America near Truth or Consequences, N.M., Sunday, July 11, 2021. (AP Photo/Andres Leighton)
Richard Branson og Beth Moses, yfirflugstjóri geimferjunnar Unity 22, fagna vel heppnaðri geimferð. Branson fær ekki að skrá sig sem geimfara í bækur bandarískra flugmálayfirvalda, en það fær Moses að gera, möglunarlaust.  Mynd: AP
Auðkýfingarnir Jeff Bezos og Richard Branson geta ekki bætt titlinum „geimfari" á ferliskrána -- að minnsta kosti ekki í Bandaríkjunum -- þótt báðir hafi þeir brugðið sér upp fyrir heiðhvolfið á dögunum, hvor í sinni flauginni. Ástæðan er sú að Flugmálastofnun Bandaríkjanna hefur hert skilyrðin sem uppfylla þarf til að fá að skrá sig sem geimfara í þeirra bókum. Til þess þarf fólk nú að tilheyra áhöfn geimfarsins og leggja sitt af mörkum til að tryggja öryggi um borð.

Þetta eru fyrstu breytingarnar sem gerðar eru á reglum  Flugmálastofnunarinnar um geimferðir einkaaðila frá því að þær voru settar árið 2004. Breytingarnar voru kynntar sama dag og Bezos flaug upp í heiðhvolfið í flaug sinni, Blue Origin.

Til að geta kallað sig geimfara samkvæmt skilgreiningu stofnunarinnar þarf fólk að fljúga minnst 80 kílómetra upp fyrir yfirborð jarðar, sem hvortveggja Branson og Bezos vissulega gerðu. Því til viðbótar þarf fólk nú að teljast til áhafnar geimfarsins og taka þátt í aðgerðum meðan á geimferðinni stendur sem skipta sköpum fyrir almannaöryggi og/eða öryggi fólks í geimferðum. Það er svo sérfræðinga Flugmálastofnunar að meta það, hvort viðkomandi uppfylli þessi skilyrði.

Þegar Branson brá sér upp fyrir heiðhvolfið fyrr í þessum mánuði var hann farþegi ásamt þremur öðrum, en tveir flugstjórar sáu um að koma þeim út í geim og aftur heim. Og Bezos og þremenningarnir sem ferðuðust með honum upp í geim þurftu nákvæmlega ekkert að gera, þar sem flaugin er alsjálfvirk og hvorki flugstjórar né önnur áhöfn um borð.