Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þekkjum við stráginn?

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Maggý

Þekkjum við stráginn?

23.07.2021 - 11:03

Höfundar

Andi, líf, hjarta, sál er nafnið á nýrri plötu Aron Can og er innihaldið í nákvæmu samræmi við þennan stóreflistitil. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Þekkir stráginn (2016) var sem ferskur andvari í yfirstandandi rappsenu á sínum tíma þar sem Aron skipti töffarastælum út fyrir einlægni og uppskar ríkulega. Textar af Drake-skólanum, hellt úr hjartanu og örlögin grátin. Veruleiki unglingsins ljóslifandi. Tónlistin strípuð og skuggaleg, einföld og naumhyggjuleg. Trapp-áferð og rappið/söngurinn drafandi á köflum. Næsta plata, ÍNÓTT (2017), var lengri, stærri, hlaðnari, flóknari og litapallettan stækkuð. Þetta var Aron Can plata ennþá en sakleysið – sem landaði frumburðinum – var horfið. Dekkra verk í raun og eftir á að hyggja fulldökkt á köflum. Á Trúpíter var síðan eins og Aron leyfði sér aðeins að sprikla. Kæruleysisbragur næstum því sem vann í senn með plötunni og á móti. Fjölbreyttari en fyrri verk, fleiri stílar og tilraunir með tónlistina en textaleg glappaskot á köflum, þeir stundum rýrir og óspennandi. Samantekið hefur Aron haldið sjó nokkuð vel í gegnum þessar þrjár plötur, þó að nýjabrum þeirrar fyrstu verði seint toppað.

Þessi þriggja ára hvíld var auðheyranlega nauðsynleg því að Aron kemur inn af miklum krafti á þessari plötu. Árabilið frá 18 ára að 21 er sem heil eilífð, það vita þeir sem það hafa lifað, og þess má vel finna stað á plötunni.

Á nýju plötunni fær Aron lagasmiðina Þormóð Eiríksson, Arnar Inga, Magnús Jóhann og Jón Bjarna til liðs við sig og gestir eru GDRN, Birnir og hinn norski Unge Ferrari. Tilfinningin sem maður fær, eftir að hafa rúllað plötunni nokkrum sinnum, er góð. Það er ferskleiki yfir, öryggi, metnaður og kraftur sem allir öðlast þegar búið er að endurræsa kerfið. Rappið er öruggt, Aron er „á staðnum“, vakandi, meðvitaður og klár í slaginn. Textalega er hann upp og ofan. Aðeins of mikið um endurtekningar og ódýrar hendingar en um leið er enginn betri en hann í einlægum játningum og hreinskiptni. Þegar hann gerir vel þar er hann ósnertanlegur. Lögin sjálf hafa yfir sér höggþéttan blæ og Aron hefur aldrei verið betri í þeirri deildinni. Sjá slagarann „Flýg upp“, pottþétt lag, og mikilúðlegu ballöðuna „Glasið“, sem hann gerir með GDRN. Aron er líka með gott poppnef, „Hvað með það“ er gott dæmi um lag sem er á mörkum hreins popps, „r og b“ og rapps og allt gengur upp í dásamlegri sambræðslu. „Varlega“ með Unge Ferrari er auk þess glæsilegt, þar sem rómanskir taktar fá að flæða í miðju lagi. „Sofna“ er þá einnig frábært, hvar austurlenskum strengjum er rennt inn undir blálokin til að undirstrika rætur Arons. Giska sterk plata þegar allt er saman tekið og til þess fallin að blása nýju lífi í dalandi rappsenu.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Aron Can – Andi, líf, hjarta, sál

Tónlist

Skemmtilega skerandi hávaði

Menningarefni

Krómhúðað rökkurpopp

Menningarefni

Vitskert veröld