Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sektuð fyrir að fara með höndina inn í Rússland

23.07.2021 - 23:02
Ine Eriksen Söreide utanríkisráðherra Noregs og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands við landamæri ríkjanna árið 2019. Þetta getur ekki hver sem er leikið eftir.
 Mynd: Heiko Junge - EPA
Norsk kona hefur verið sektuð um 8.000 norskar krónur, um 115.000 íslenskar, fyrir þær sakir að hafa farið með vinstri höndina yfir landamærin að Rússlandi.

Konan var á gangi í Treirksrøyen í mars á þessu ári, en það er sá staður sem Noregur, Finnland og Rússland mætast. Íbúar í Noregi og Finnlandi geta gengið yfir landamærin áhyggjulausir enda frjálst flæði fólks þar á milli.

Hins vegar er ekki í boði að fara yfir rússnesku landamærin án vottorðs og á því fékk konan að kenna. Atvikið náðist á öryggismyndavél og er henni gert að greiða 8.000 norskar krónur í sekt eða sæta ellegar nítján daga fangelsi.

Konan hefur ekki enn tekið afstöðu til greiðslunnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem strangar landamærareglur vekja athygli. Árið 2007 var önnur kona sektuð fyrir að hafa naumlega stigið yfir landamærin, en rétt eins og nú komst upp um hana á öryggismyndavél.

„Reglurnar um ferðir yfir landamæri eru ansi strangar,“ hefur norska blaðið Verdens Gang eftir Lisu Moon Sneve, lögfræðingi hjá lögreglunni í Finnmörku í Noregi.

Hún segir marga ferðalanga ekki meðvitaða um hve strangar reglurnar eru. Vanþekking á lögunum sé þó ekki afsökun. „Sektin er há til að koma í veg fyrir að fólk fari yfir landamærin,“ segir hún.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV