Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öryggisráðið fordæmir yfirlýsingar Erdogans

23.07.2021 - 17:28
Erlent · Asía · Kýpur · Tyrkland · Evrópa · Stjórnmál
epa09353507 A handout photo made available by the Turkish President Press office shows Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaking at the Turkish Cypriots parliament in the Turkish-administered northern part of the divided capital Nicosia, Cyprus, 19 July 2021. Erdogan is in Northern Cyprus for celebrations of 47th anniversary of the Turkey?s Peace Operation in Cyprus.  EPA-EFE/TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Recep Tayyip Erdogan forseti ávarpar þinbg Kýpur-Tyrkja. Mynd: EPA-EFE - Tyrkneska forsetaembættið
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í dag yfirlýsingu Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta um að tvö ríki skuli vera á Kýpur og að Kýpur-Tyrkjum verði leyft að flytja til draugabæjarins Varosha á eyjunni. 

Í ályktuninni segir að orð Erdogans forseta gangi þvert á fyrri samþykktir og yfirlýsingar öryggisráðsins um skipan mála á Kýpur. Þau eru hvort tveggja hörmuð og fordæmd.

Forsetinn lét þessi orð falla í heimsókn á norðurhlutann fyrr í þessari viku. Heimamenn kalla landshlutann Tyrkneska lýðveldið Norður-Kýpur. Þeir hafa lýst yfir sjálfstæði sem Tyrkir einir viðurkenna. Eyjan hefur verið klofin frá því að Tyrkir réðust þar inn árið 1974. Við það lögðu íbúar ferðamannabæjarins Varosha á flótta. Enginn hefur búið þar síðastliðin 47 ár. Allt er að grotna þar niður og flestu fémætu hefur fyrir löngu verið rænt. 

Stjórnvöld á Kýpur og í Grikklandi brugðust hart við yfirlýsingum Erdogans forseta. Hið sama gerðu Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn og í dag bættist öryggisráðið í hópinn. Minnt er á mikilvægi þess að farið sé eftir ályktunum sem ráðið hefur samþykkt, þar á meðal að bærinn Varosha sé undir stjórn Sameinuðu þjóðanna.