Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Norðmenn mótfallnir endurupptöku erfðafjárskatts

23.07.2021 - 02:42
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Mikill meirihluti Norðmanna er því mótfallinn að erfðafjárskattur verði tekinn þar upp að nýju. Skoðanakönnun sem gerð var á vegum norska blaðsins Klassekampen leiðir þetta í ljós. Ríkisstjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins, undir forsæti Ernu Solberg, felldi erfðafjárskattinn niður árið 2014. Samkvæmt könnun Klassekampen eru nær sjö af hverjum tíu Norðmönnum enn hæstánægðir með þá ákvörðun og mótfallnir því að innleiða skattinn að nýju.

Þrír flokkar hafa það á stefnuskrá sinni að taka aftur upp erfðafjárskatt; báðir Sósíalistaflokkarnir og Græningjar. Hinir vinstriflokkarnir á þingi, Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn, eru því andvígir.

Hér á landi er lagður tíu prósenta skattur á „heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og útfararkostnaði" umfram fimm milljónir króna. Makar og sambýlisfólk sem erfir maka sinn samkvæmt erfðaskrá eru undanþegin erfðafjárskatti.