Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland áfram grænt í Noregi

23.07.2021 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Helsedirektoratet - RÚV
Flokkun norskra heilbrigðisyfirvalda á brottfararlöndum ferðamanna til Noregs var uppfærð í dag. Ísland er áfram grænt á kortinu eftir nýjustu uppfærslu. Norski fréttamiðillinn VG greindi sérstaklega frá því í gær að Ísland yrði hugsanlega fært á appelsínugult stig í dag vegna fjölgunar smita undanfarna daga. En svo varð ekki.  

Sé land grænt eru farþegar undanþegnir komubanni og kröfu um sóttkví við komuna til Noregs. Farþegar frá grænum svæðum þurfa hvorki að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku, bólusetningarvottorð né dvelja í sóttkví. Allir þurfa þó að forskrá sig í landið og gangast undir skimun við komuna til Noregs. 

Sérstakar reglur gilda þó fyrir ferðamenn sem hafa dvalið eða millilent í landi með hærri smitstöðu. Þær má finna á síðu norskra heilbrigðisyfirvalda.

Rétt er þó að benda á að sóttkvíarreglur sem litaflokkun norskra stjórnvalda fylgja eiga við þá sem ekki eru fullbólusettir. Það á þá jafnframt við börn undir 18 ára. Ferðamenn sem hyggja á ferðalög til Noregs eru hvattir til þess að fylgjast með síðu norskra heilbrigðisyfirvalda fyrir brottför. Þá er jafnframt bent á Ferðaráð Utanríkisráðuneytisins vegna COVID-19.