Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Framboð kviku að minnka og líklegt að gosið fjari út

23.07.2021 - 09:11
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Hraunflæðimælingar á eldgosinu við Fagradalsfjall gefa til kynna að það hafi dregist verulega saman og gosið sé því greinilega á undanhaldi. Mælingar hafa byggst á loftmyndum úr flugvélum auk sniðmælinga. Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði segir hraunflæði hafa minnkað og virkni breyst.

„Mælingarnar ramma inn gosið og hafa verið gerðar frá upphafi. Með þessu höfum við geta fylgst með ákafa gossins, hve mikið kemur upp úr á hverjum tíma sem er algjörlega lykilatriði í eldgosum. Því það er stærðin sem skiptir máli upp á öll áhrif,“ sagði Magnús í samtali við fréttastofu í dag.

Undanfarnar vikur hefur flugvélin, sem notuð hefur verið til rannsókna á gosstöðvunum verið bundin í öðrum verkefnum. 19. júlí fengu vísindamenn flugvél í eigu Isavia, búna radarhæðarmæli, og gátu í kjölfarið borið stöðuna saman við stöðuna 2. júlí. Á því tímabili hefur virkni breyst og reglulega orðið goshlé.

„Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þær að það dregur verulega úr hraunrennslinu sem kemur svo sem ekki á óvart. Það staðfestir að rennslið fer úr þessum 12 rúmmetrum á sekúndu niður í sjö til átta. Þetta eru marktækar niðurstöður og sýna að farið er að draga verulega úr,“ segir Magnús Tumi.

Kvikan virðist vera að koma beint úr möttlinum en ekki úr kvikuhólfi líkt algengast er í eldgosum hér á landi. Magnús Tumi segir að líklegt sé að gosið muni fjara út en erfitt sé að setja fram tímaramma.

„Það virðist vera vídd gosrásarinnar sem hefur ráðið mestu hvað varðar hegðun. Það virðist vera að framan af hafi gosrásin víkkað aðeins og því jóx gosið fyrstu mánuðina. Nú er að minnka framboðið þarna niðri og það er líklegt að við munum horfa á minnkandi gos sem svo fjarar út en tímasetningar eru mjög erfiðar,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði.

Andri Magnús Eysteinsson