Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjölmiðill sem rannsakaði eitrun á svartan lista

23.07.2021 - 16:39
epa09025237 Russian opposition leader Alexei Navalny gestures inside a glass cage prior to a hearing at the Babushkinsky District Court in Moscow, Russia, 20 February 2021. The Moscow City court will hold a visiting session at the Babushkinsky District Court Building to consider Navalny's lawyers appeal against a court verdict issued on 02 February 2021, to replace the suspended sentence issued to Navalny in the Yves Rocher embezzlement case with an actual term in a penal colony.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússnesk yfirvöld tilkynntu í dag að fjölmiðillinn The Insider væri kominn á lista yfir erlenda erindreka þar í landi. Það setur ýmsar hömlur á starfsemina. Blaðamenn The Insider rannsökuðu eitrun á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny, í samstarfi við breska fjölmiðilinn Bellingcat, og líka mál tengt feðginunum Sergei og Yuliu Skripal, sem eitrað var fyrir í Salisbury á Englandi árið 2018. Yfirvöld margra Evrópuríkja telja Rússa ábyrga fyrir ódæðinu.

Fyrirtæki sem eru með þá skilgreiningu rússneskra stjórnvalda að vera erlendir erindrekar þurfa að gefa upp í smáatriðum hvaðan þau fá fjárframlög og geta lent í vandræðum þyki þær upplýsingar ekki passa. Þá gefur skilgreiningin stjórnvöldum víðtækar heimildir til eftirlits. The Insider er sextándi fjölmiðillinn í Rússlandi sem fær á sig þennan stimpil. Fyrr á árinu voru meðal annars fjölmiðlarnir Meduza og VTimes skilgreindir á þennan hátt. Þeim síðarnefnda hefur verið lokað en Meduza reiðir sig á framlög almennings.

Fréttastofa ræddi við ritstjóra Meduza í sumarbyrjun og sagði hann að allir auglýsendur hafi dregið sig til baka, því þeir vilji ekki tengjast fjölmiðlum sem séu erlendir erindrekar. Þá óttaðist hann einnig að heimildarmönnum myndi fækka. Það eru ekki aðeins fyrirtæki sem eru skilgreind á þennan hátt heldur líka einstakir blaðamenn. Í dag tilkynnti dómsmálaráðuneyti Rússlands einnig að nokkrir blaðamenn The Insider væru skilgreindir erlendir erindrekar. Sömu örlög hlutu einnig fimm aðrir blaðamenn, meðal annars hjá Proekt. Stofnun Alexei Navalny var á sínum tíma skilgreind sem erlendur erindreki og þar gerði lögregla oft húsleitir.

Höfuðstöðvar The Insider eru í Riga í Lettlandi. Fjölmiðillinn var stofnaður árið 2013 af Roman Dobrokhotov og hafa blaðamenn sérhæft sig í rannsóknarblaðamennsku. Umfjöllun þeirra og Bellingcat um eitrunina á Navalny í fyrra vakti athygli víða um heim. Þar kom meðal annars fram að rússneska leyniþjónustan, FSB, hefði eitrað fyrir stjórnarandstæðingnum og að útsendarar hennar hefðu fylgt honum eftir á meira en 30 ferðalögum í þrjú ár áður en látið var til skarar skríða í Tomsk í Síberíu í ágúst. 

Þingkosningar verða í Rússlandi í haust og telja margir andstæðingar stjórnvalda að þau vilji þagga niður í gagnrýnisröddum í aðdraganda þeirra. Þá er skemmst að minnast þess að stofnun Alexei Navalny var skilgreind sem öfgasamtök á árinu og í kjölfarið leyst upp. Ákveðið var að hætta starfseminni til að minnka líkurnar á fangelsisdómum yfir þeim sem þar störfuðu.