Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eiður Smári orðaður við þjálfarastarf í Bretlandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Eiður Smári orðaður við þjálfarastarf í Bretlandi

23.07.2021 - 20:24
Aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins, Eiður Smári Guðjohnsen, er orðaður við stjórastarfið hjá Swansea í enskum fjölmiðlum þessa dagana.

Steve Cooper fyrrum þjálfari Swansea bað um að fá að losna undan störfum hjá félaginu og þurfa forsvarsmenn því að hafa hraðar hendur í þjálfararráðningum því undirbúningstímabil liða er nú þegar hafið og allt tímabilið fram undan.

Liðið endaði í fjórða sæti í næst efstu deild Englands á síðasta tímabili en tapaði í úrslitaleik við Brentford um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Eiður Smári er ekki talinn líklegastur af veðmálasíðu Sky Bet en hann er þó alls ekki ólíklegur. John Eustace er líklegastur til að taka við og svo kemur Cameron Toshack. Næstir á eftir þeim eru Alan Tate og Eiður Smári, en þeir fá líkurnar 11 á móti 1 að vera ráðnir.

Eiður er sem stendur í tímabundnu leyfi frá aðstoðarlandsliðsþjálfarastöðunni eftir að KSÍ veitti honum skriflega áminningu vegna hegðunar í miðbæ Reykjavíkur í byrjun júní.