Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

COVID-mótmæli í Slóvakíu

Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Óeirðalögreglumenn í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, beittu táragasi gegn mótmælendum sem söfnuðust saman við þinghús landsins og komu í veg fyrir að fólk kæmist þar út eða inn. Mótmælt var frumvarpi til laga sem á að heimila bólusettu fólki aðgang að almennum samkomum, sem verða lokaðar hinum óbólusettu.

Að sögn slóvakískra fjölmiðla söfnuðust nokkur hundruð manns saman við þinghúsið og létu ófriðlega. Auk þess að hindra aðgang að húsinu grýttu margir það með eggjum. Þingmenn voru sakaðir um landráð. Einn hélt á skilti sem á stóð: stöðvið kórónufasismann. Einn lögreglumaður slasaðist lítillega. Eftir að óeirðalögreglan greip til táragassins róuðust mótmælendur. Á endanum leystust aðgerðir þeirra friðsamlega upp.

Stjórnvöld í Slóvakíu hafa reynt hvað þau geta til að fá fólk til að láta bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Samkvæmt upplýsingum Johns Hopkins-háskólans í Maryland höfðu 34,9 prósent verið full-bólusett í gær. Það er með því minnsta sem þekkist í Evrópusambandsríkjum.

Nokkrir slóvakískir stjórnarandstöðuþingmenn hafa andmælt þörfinni fyrir að láta bólusetja sig gegn veirunni. Þeirra á meðal er Robert Fico, fyrrverandi forsætisráðherra.