Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetning sé „grundvöllur að frelsinu“

Mynd: Hjalti Stefánsson / RUV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það mikla varúðarráðstöfun að grípa til samkomutakmarkana nú þegar svo stór hluti þjóðarinnar er bólusettur. Hann segir ríkisstjórnina hafa hlustað á áhyggjur sóttvarnayfirvalda af fjölgun smita og gripið inn í. 

„Þetta er rétt á meðan við erum að átta okkur á hvaða þýðingu það hefur í bólusettu samfélagi þegar smit breiðast út,“ segir Bjarni. Fylgst verði með þróun mála erlendis til að draga lærdóm af því.

Bjarni segir það sína sannfæringu að bólusetning sé „grundvöllurinn að frelsinu“ og að öll gögn sem hann hefur séð renni stoðum undir það.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar taka gildi á miðnætti annað kvöld og gilda í þrjár vikur. Bjarni býst við að hægt verði að aflétta aðgerðum þá. 

„Ég er ofboðslega bjartsýnn eftir að sjá tölfræðina annars staðar frá,“ segir Bjarni. „Ef niðurstaðan er sú að það séu sáralitlar líkur á að fólk verði veikt þá finnst mér við ekki geta lagt mjög miklar byrgðar á samfélagið.“