YouTube fjarlægir myndskeið Brasilíuforseta

epa09034879 The President of Brazil Jair Bolsonaro during the ceremony of approval of the Central Bank Autonomy Law, in Brasilia, Brazil, 24 February 2021. Brazilian President Jair Bolsonaro renewed his Government with changes in two ministries and sanctioned a law that gives autonomy to the Central Bank, which is part of his objective of liberalizing the country's economy.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Myndefnisveitan YouTube hefur fjarlægt myndskeið með Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu þar sem talið er að í þeim séu rangar eða villandi upplýsingar um kórónuveiruna sem veldur COVID-19. 

Alls voru fimmtán myndskeið fjarlægð eftir ítarlega rannsókn á efni þeirra. Í fréttatilkynningu sem YouTube sendi frá sér segir að fullyrðingar forsetans um lækningu við sjúkdómnum og að grímur komi ekki að notum til að hefta útbreiðslu veirunnar hafi stangast á við reglur veitunnar.

Í fyrra fjarlægðu Twitter og Facebook myndskeið þar sem Bolsonaro fullyrti að það ekkert gagn væri af fjarlægðartakmörkunum til að hefta útbreiðslu veirunnar og að besta vörnin væri sú að sem flestir Brasilíumenn smituðust. Þá myndi veiran deyja út.

Jair Bolsonaro hefur jafnan gert lítið úr COVID-19 faraldrinum og jafnvel gert grín að þeim sem berjast gegn honum. Hann er þó einn þeirra þjóðarleiðtoga sem hafa smitast og veikst. Hann var heima í nokkra daga síðastliðið sumar, en bar sig vel og sagðist hafa það gott. Hann þurfti hins vegar að leggjast inn á spítala fyrr í þessum mánuði eftir að hafa hikstað látlaust í tíu daga. Hann var útskrifaður eftir fjóra daga með ráðleggingum um að breyta mataræðinu, tyggja matinn vel, og hreyfa sig meira.

Síðastliðið vor ákvað brasilíska þingið að láta fara fram opinbera rannsókn á viðbrögðum stjórnar Bolsonaros við COVID-19 faraldrinum. Samkvæmt opinberum tölum hafa hátt í nítján milljónir landsmanna smitast. Dauðsföllin eru yfir 545 þúsund, næst flest í heiminum á eftir Bandaríkjunum.