Vill herða baráttu gegn loftslagsbreytingum

22.07.2021 - 12:33
epa09354898 German Chancellor Angela Merkel (C) and Prime Minister of North Rhine-Westphalia Armin Laschet (L) inspect the damage after heavy flooding of the river Erft caused severe destruction in the village of Bad Muenstereifel, Euskirchen district, Germany, 20 July 2021. Large parts of western Germany and central Europe were hit by flash floods in the night of 14 to 15 July, following days of continuous rain that destroyed buildings and swept away cars. The total number of victims in the flood disaster in western Germany rises to at least 164, with many hundreds still missing.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL / POOL
Angela Merkel kannar verksummerki eftir flóðin í vesturhluta Þýskalands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að Þjóðverjar og aðrar þjóðir hafi ekki gert nóg til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar í heiminum. Hún vill herða baráttuna. Náttúruhamfarir í Vestur-Evrópu í síðustu viku eru raktar til þeirra.
Mikil flóð í vesturhluta Þýskalands og austurhluta Belgíu í síðustu viku eru rakin til hlýnunar í heiminum.  Angela Merkel gerði loftslagsmálin að umtalsefni á fundi með fréttamönnum í Berlín í dag. Hún sagði að Þjóðverjar og aðrar þjóðir hefðu ekki gert nóg til að stöðva þróunina til að ná þeim markmiðum sem sett voru með Parísarsáttmálanum um minnkun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Rangt væri að fullyrða að ekkert hefði verið gert, en það mætti vissulega vera mun meira. Hún minnti á að fyrr á þessu ári hefðu stjórnvöld tilkynnt að stefnt skyldi að því að stöðva losun gróðurhúsalofttegunda árið 2045, fimm árum fyrr en áður var áætlað. Merkel hitti nokkur fórnarlömb hamfaranna í Rheinland-Pfalz um síðustu helgi og ræddi þar einnig mikilvægi þess að berjast gegn loftslagsbreytingum. Flóðin kostuðu að minnsta kosti 177 manns lífið í Þýskalandi og 32 í Belgíu. Eignatjón skiptir milljörðum evra.  Angela Merkel lætur af embætti kanslara eftir þingkosningar í Þýskalandi 26. september. Hún hefur gegnt því síðastliðin sextán ár.
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV