Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Upplýsingafundur í dag og búist við fjölgun smita

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Almannavarnir boða til upplýsingafundar í dag vegna stöðu kórónuveirufaraldursins. 56 kórónuveirusmit greindust innanlands í fyrradag og búist er við áframhaldandi fjölgun smita.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði í gær útbreiðslu veirunnar vaxa hraðar nú en í fyrri bylgjum faraldursins og gerði ráð fyrir því að Ísland verði orðið rautt land í alþjóðlegri skilgreiningu á stöðu farsóttarinnar í löndum heims, næst þegar slíkt kort kemur út. Hann á áfram von á fjölgun smita í dag. Meta þurfi aðstæður á næstu dögum en reynslan sýni að harðar aðgerðir beri skjótastan árangur. 

Forsvarsmenn fjöldasamkoma víða um land bíða þess sem verða vill milli vonar og ótta en segjast taka því sem að höndum ber. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist í Fréttablaðinu í dag skilja þörf fólks um skýr svör um hvað verður, en segir mikilvægt að fá andrými til að meta stöðuna. Tillögur um frekari aðgerðir en þær sem ákveðnar voru á mánudag, þegar aðgerðir voru hertar á landamærum, eru ekki komnar á borð ríkisstjórnarinnar. 

Katrín segir í blaðinu ekki hægt að grípa til sömu aðgerða og áður, þar sem staðan nú væri önnur en í fyrri bylgjum vegna útbreiddra bólusetninga.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu finnur einnig fyrir fjölgun smita í samfélaginu. Af 134 sjúkraflutningum síðasta sólarhringinn voru 25 flutningar vegna COVID-19 smita, við lítinn fögnuð þeirra sem standa vaktina segir í færslu varðstjóra slökkviliðsins í morgun. 

Upplýsingafundur almannavarna vegna COVID-19 er á dagskrá klukkan ellefu í dag, í beinni útsendingu á öllum miðlum RÚV.