Þórólfur sendir Svandísi minnisblað í dag

22.07.2021 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að senda Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblað í dag þar sem hann leggur til aðgerðir vegna mikillar fjölgunar COVID-smita undanfarið. Þessu greindi Þórólfur frá á upplýsingafundi almannavarna nú undir hádegi.

Þórólfur fór yfir gang faraldursins og fjölgun smita. 236 hafa greinst með COVID frá mánaðamótum, þar af 213 síðustu vikuna. Þórólfur lýsti vonum um að hertar aðgerðir á landamærunum í næstu viku yrðu til þess að smit bærist síður inn í landið og dreifðist síður innanlands. Hann sagði þó ljóst að það eitt og sér myndi ekki stöðva faraldurinn. 

„Ég mun því senda ráðherra minnisblað í dag um tillögur að aðgerðum innanlands til að hefta útbreiðslu veirunnar svo að koma megi í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hennar,“ sagði Þórólfur. Hann sagði skynsamlegra að grípa strax inn í en að bíða þar til faraldurinn væri kominn á fullt og of seint að bregðast við. 

Þórólfur kvaðst ekki tilbúinn að ræða tillögurnar opinberlega fyrr en ráðherra og ráðamenn hefðu fengið tækifæri til að ræða þær. Hann sagði þó ljóst hvaða samfélagslegu aðgerðir hefur virkað. Hann endurtók fyrri orð í faraldrinum um mikilvægi persónulegra sóttvarna en sagði að þegar staðan væri verst hefði alltaf þurft að grípa til samfélagslegra aðgerða.

Nokkrir mánuðir enn

Þórólfur sagði að svo virtist sem einhverjir teldu að nóg væri að stöðva faraldurinn hérlendis og þá væri þessu lokið. Sú væri ekki raunin. Hann sagði að ráða þyrfti niðurlögum COVID alls staðar, áður væri faraldrinum hvergi lokið. Hann sagði að það tæki nokkra mánuði í viðbót. Þetta væri því ekki spurning um nokkrar vikur. „Þetta er lengri barátta en svo.“

Þórólfur var spurður hvort hægt væri að gera kröfu um að taka sýni af fólki áður en það færi á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum til að sporna gegn útbreiðslu smita. Hann sagðist ekki telja að heilbrigðisyfirvöld hefðu getu til þess. Hugsanlega mætti nota hraðgreiningarpróf en samt þyrfti mikinn mannskap til að sinna því. Það þyrftu aðrir að skoða og meta hvort slíkt væri framkvæmanlegt. Það yrði þó dýrt og óvíst hvort hægt væri að framkvæma slíkt með stuttum fyrirvara.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, benti á að fleiri stór mannamót væru framundan á sama tíma. Það gæti því þurft að skima tugi þúsunda.

Aukaskammtur fyrir viðkvæma og þau sem fengu Jansen

Þórólfur sagði stefnt að því að bjóða fólki sem var bólusett með bóluefni Jansen að fá annan skammt af öðru bóluefni, líklega Pfizer. Enn fremur stendur til að bjóða eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma þriðja skammt af bóluefni ef mótefnasvar þeirra er minna en æskilegt er. 

Fréttin var uppfærð 12:26.