Mörgum líður miklu betur eftir að skipta um fornafn

Mynd: Elísabet Rún / Facebook

Mörgum líður miklu betur eftir að skipta um fornafn

22.07.2021 - 12:28

Höfundar

„Þetta hefur mjög mikla þýðingu fyrir margt kynsegin fólk og er mjög mikilvægt,“ segir Elísabet Rún, höfundur heimildamyndasögunnar Kvár, um það að koma út sem kynsegin manneskja og nota um sig þau fornöfn sem hæfa best. Bókin byggir á viðtölum og fjallar um kynseginleikann frá öllum hliðum.

Í maímánuði kom út heimildamyndasagan Kvár eftir teiknarann og myndasöguhöfundinn Elísabetu Rún. Hún fjallar um það að vera kynsegin, sem merkir að vera manneskja sem upplifir sig hvorki sem karlkyn né kvenkyn, hvort tveggja í senn eða eitthvað allt annað. Bókin er eitt af fyrstu bókverkunum sem hefur kynseginleikann að leiðarstefi og byggir hún á viðtölum við sex kvár um reynslu þeirra og skoðanir.

Mynd með færslu

 

Bókin var útskriftaverkefni Elísabetar úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. „Ég var alltaf ákveðin í að gera myndasögu. Það hefur verið mitt svið, ég hef verið að gera myndasögur frá því ég man eftir mér,“ segir Elísabet. Umfjöllun um kynseginleikann fannst henni sárlega vanta á íslensku og henni þótti myndasöguformið hæfa því vel. „Þetta er efni sem mörgum fannst flókið, svo mér fannst liggja beint við að gera myndasögu um kynseginleika sem lokaverkefni og fara alla leið og gefa hana út,“ segir Elísabet.

Orðið kvár er úr smiðju eins viðmælanda bókarinnar, Hrafnsunnu, sem lagði það til sem orð sem á yfir manneskju án tilliti til kyns. „Maður tekur eftir að það vantar þetta orð. Fólk talar stundum um að fólk sé hán en hán er fornafn en ekki nafnorð. Hún kom með þessa tillögu sem var síðan valin í hýryrðasamkeppni Samtakanna 78 á síðasta ári,“ segir Elísabet.

Í bókinni leikur Elísabet sér vísvitandi með litaklisjur og bleikur og blár, sem hafa hingað til haft afar kynjaðar skírskotanir, eru áberandi. Hún segist þó fara aðeins út fyrir klisjuna, „í ljósari bláan og skærrauðan. Það er verið að leika með klisjurnar en ekki of augljóst.“

Elísabet segir að bókin fjalli um hvað það er furðulegt í samfélaginu hve mikil áhersla er lögð á kyn. „Þegar maður hugsar betur um hugtakið er ekki augljóst hvað kyn er,“ segir Elísabet. „Það er ekki eingöngu líffræðilegt, það er félagslegt og svo er það mjög persónulegt. Það hefur ótrúlega mikið vægi í samfélaginu hvernig við komum fram við hvert annað.“ Hún segir að það að vera kynsegin sé í sjálfu sér uppreisn gegn kynjatvíhyggjunni og snúist um að vilja vera manneskja.

Margir viðmælendur Elísabetar lýsa þeim létti sem fylgdi nýrri skilgreiningu. „Um leið og þau skiptu í hvorugkyn og önnur fornöfn þá bara leið þeim miklu betur. Þetta hefur mjög mikla þýðingu fyrir margt kynsegin fólk og er mjög mikilvægt.“

Bókin Kvár er í sölu í Eymundsson en einnig er hægt að hafa samband við Elísabetu beint til að nálgast bókina.

Rætt var við Elísabetu Rún í Tengivagninum á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var miklu týndara en ég er núna“