Löng röð í sýnatöku en gengur hratt fyrir sig

22.07.2021 - 10:30
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Mikið er að gera í sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hefur myndast löng röð við Suðurlandsbraut 34 þar sem sýnatakan fer fram. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þrátt fyrir langa röð gangi allt fljótt fyrir sig. Fólki er því ekkert til fyrirstöðu að bóka sig í sýnatöku og mæta á Suðurlandsbraut.

Röðin liggur alla leið upp í Ármúla. Fólk virðist gæta þess að hafa góða fjarlægð á milli sín og er röðin lengri sem því nemur. 

„Þetta gengur mjög hratt,“ segir Sigríður Dóra. „Fólk getur óhrætt mætt.“ Hún hvetur fólk sem finnur fyrir einkennum til að skrá sig í sýnatöku á vefnum Heilsuvera.is og mæta síðan á Suðurlandsbraut.

Þeim sem mæta í sýnatöku hefur fjölgað dag frá degi undanfarið. Í gær mættu 3.500. Þar af voru 2.000 í einkennasýnatöku en 1.500 létu skima sig fyrir utanlandsför.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hluti biðraðarinnar í sýnatöku í morgun.