Lið á ReyCup í sóttkví

22.07.2021 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Þrjú lið hafa þurft að draga sig út úr keppni á ReyCup mótinu sem fram fer þessa dagana þar sem einstaklingar innan þeirra hafa orðið útsettir fyrir Covid-19 smiti. Þetta staðfestir Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Rey Cup, í samtali við fréttastofu nú í kvöld.

 

Lið frá Stjörnunni úr Garðabæ þurfti að draga sig úr keppni áður en mótið hófst og var þar um varúðarráðstöfun að ræða, að sögn Gunnhildar. „Engin í liðinu var orðin lasin en einn leikmaður liðsins var í samskiptum við smitaðan einstakling fyrir tveim dögum síðan. Þar af leiðandi var ekki um annað að ræða en að liðið hætti við keppni."

Í dag þurftu tvö lið einnig að hætta keppni á mótinu, í kjölfar þess að þau mættust á vellinum í leik. Innan annars liðsins reyndist einn einstaklingur smitaður og í kjölfarið fóru bæði liðin í sóttkví.

Gunnhildur tekur fram að sá smitaði og mótherjar hafi ekki verið í gistingu á mótinu né verið í mat, en þar er um að ræða þær aðstæður þar sem flestir koma saman í einu. „Sá smitaði var heldur ekki viðstaddur opnunarhátíðina. Leikmaðurinn mætti bara í þennan eina leik og yfirgaf völlinn áður en honum lauk. Hann kom því ekki á neina mótsviðburði eða mótsaðstöðu, fyrir utan þennan eina leik."

Ennfremur bendir Gunnhildur á að þar sem grunur var á smiti hefur mótstjórn verið í nánu samstarfi við almannavarna og unnið að ráðstöfunum í góðu samstarfi við sóttvarnaryfirvöld. Gunnhildur vill hvetja alla til að huga að persónulegum sóttvörnum. Þar sem þessi tvö lið og sá smitaði voru ekki á mótssvæði eftir leikinn í dag heldur ReyCup áfram óbreytt að sinni en hvetur Gunnhildur fólk til að fylgjast vel með komandi fréttum.
 

 

Jón Agnar Ólason