Katrín: skynja vel óþol hjá þjóðinni eftir svörum

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Forsætisráðherra segir Ísland vera mjög framarlega í flokki þjóða þegar kemur að bólusetningum og því verði viðbrögðin hér mikilvæg fyrir aðrar þjóðir. Hún segist skynja það vel að það sé óþol hjá þjóðinni að fá skýr svör sem fyrst um hvað standi til að ríkisstjórnin kynni eftir að hafa fengið og fjallað um tillögur frá sóttvarnalækni sem eiga að berast síðar í kvöld.

Katrín segir skiljanlegt að samkomuhaldarar sem hafi útihátíðir með höndum um verslunarmannahelgina bíði eftir því sem verða vill. Það hermi uppá ríkisstjórnina að bregðast hratt við. Búast má við tillögum að hertum aðgerðum strax á morgun. 

Tillögur frá sóttvarnalækni í kvöld

Forsætisráðherra segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með fjölgun smita miðað við hátt hlutfall bólusetningar. Hún segist skynja það vel að það sé óþol hjá þjóðinni að fá skýr svör sem fyrst um hvað standi til að ríkisstjórnin kynni eftir að hafa fengið og fjallað um tillögur frá sóttvarnalækni sem eiga að berast síðar í kvöld. 

Óvissa um veikindi bólusettra

Katrín segir leiðarljósið eftir sem áður að vernda líf og heilsu landsmanna. „Við erum í mikilli óvissu hvað þetta þýðir. Við getum í rauninni ekki sagt til um það hvernig veikindi munu birtast hjá bólusettu fólki og við höfum hingað til tekið þá afstöðu að vera með varfærna stefnu með það skýra leiðarljós að vernda líf og heilsu landsmanna og það leiðarljós hefur ekki breyst.” 

Höfum sýnt gríðarlegt úthald

Katrín segir að í kjölfarið þurfi að hafa hraðar hendur og aðgerðir verði kynntar fyrr en seinna. Þjóðin sé þó orðin vön að laga sig að nýjum aðstæðum. „Það sem er að gerast núna hjá okkur mun verða mjög mikilvægt fyrir aðrar þjóðir. Við sjáum það líka að Norðmenn voru að taka nýjar ákvarðanir um kröfur á sínum landamærum, við sjáum að grímuskylda er aftur komin til umræðu í Bandaríkjunum, þannig að það eru auðvitað allar þjóðir að laga sig að þessari óvissu og þar höfum við Íslendingar sýnt gríðarlega mikið úthald og þolgæði.”