Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kanna viðhorf til vindorkugarðs

22.07.2021 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: Zephyr Iceland - Zephyr
Fyrirhugað er að gera viðhorfskönnun meðal íbúa Norðurþings til að kanna áhuga þeirra á að reistur yrði vindorkugarður á Hólaheiði. Margir íbúar hafa lýst efasemdum um framkvæmdina.

Íbúar fullir efasemda

Sveitarfélagið hefur lagt til að 33 ferkílómetrum lands á Melrakkasléttu verði breytt í iðnaðarsvæði í stað landbúnaðarsvæðis eins og það er nú skilgreint. Tilgangurinn með þessari breytingu er að unnt yrði að reisa þar allt að 40 vindmyllur.

Fjölmargar athugasemdir bárust frá íbúum og var engin þeirra jákvæð í garð þessara framkvæmda. Þótti mörgum farið of geyst af stað. Ekki væri rétt að breyta aðalskipulagi fyrr en ljóst væri að vindorkugarður myndi rísa á svæðinu. Til þess þyrfti að athuga hvort íbúar svæðisins hefðu áhuga á að fá slíkan garð en einnig þyrfti að ljúka við umhverfismat. 

Könnun í ágúst

Á fundi skipulags- og byggðarráðs Norðurþings í vikunni kom fram að ákveðið hefði verið að gera viðhorfskönnun meðal íbúa sveitarfélagsins. Á fundinum kom einnig fram að setja ætti upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins um hugmyndir að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í tengslum við mögulegan vindorkugarð. Ráðið hvetur íbúa á því svæði sem til umræðu er að kynna sér þessar breytingahugmyndir og taka upplýsta ákvörðun. Fyrirhugað er að könnunin verði gerð í ágúst. Hverfisráð Kópaskers hefur gefið út að íbúafundur verði haldinn þar vegna málsins um miðjan ágúst, áður en könnunin verður gerð.