Heimstaden hyggst ekki stórlækka verð að fordæmi Bjargs

22.07.2021 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Leigufélagið Heimstaden hyggst ekki taka áskorun varaformanns Íbúðafélagsins Bjargs um að stórlækka leiguna. Framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi segir að félagið hafi ekki kost á að endurfjármagna öll lán sín með sama hætti og Bjarg. Leiguverð ráðist fyrst og fremst af framboði og eftirspurn. 

Bjarg, óhagnaðardrifið íbúðafélag ASÍ og BSRB, boðaði í vikunni miklar leigulækkanir. Í september á meðalleiga hjá 190 leigutökum félagsins að lækka úr 180 þúsund krónum á mánuði í 155 þúsund.  Svigrúm skapaðist til lækkananna eftir að félagið samdi um langtímafjármögnun lána við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Við þetta tilefni skoraði  Ragnar Þór Ingólfsson, varaformaður Bjargs á stór leigufélög á almennum markaði að skila ávinningi af vaxtalækkunum undanfarinna mánaða til leigutaka sinna. Félögin hafi flest verið að endurfjármagna lán til að fá lægri vexti.

Heimstaden hafi ekki svigrúm til mikilla lækkana

Gauti Reynisson er framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi, leigufélagið hét áður Heimavellir en hefur tekið upp þetta nýja nafn, enda komið með starfsemi í níu löndum. Fyrirtækið hagnaðist um rúman milljarð íslenskra króna í fyrra.

Gauti bendir á að leiguvísitala og leiguverð hafi almennt lækkað síðastliðið ár og leigjendur hafi margir notið þess. Gauti segir Heimstaden ekki hafa svigrúm til að ráðast í miklar lækkanir. Framboð og eftirspurn stjórni mestu um verðið, þá eigi félagið ekki kost á að endurfjármagna öll sín lán. „Það eru ekki öll okkar lán á breytilegum vöxtum eða lán sem hægt er að endurfjármagna, við höfum gefið út skuldabréf í gegnum árin sem eru á föstum vöxtum og ekki uppgreiðanleg til fjölda ára. Þannig að við getum ekki lækkað leiguverð á öllum okkar íbúðum, en þar sem við höfum getað endurfjármagnað og lækkað vexti þar höfum við reynt að lækka leiguverðið.“

Ykkar skjólstæðingar eiga semsagt ekki von á 10-15% lækkun?

Nei, þeir eiga ekki von á slíkri lækkun yfir línuna en aftur á móti erum við að vinna með hverjum og einum og bjóða eins hagstæða leigu og hægt er,“ segir Gauti. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV