Fabian Delph sagður vera öskureiður Everton

epa06848489 Fabian Delph of England in action during the FIFA World Cup 2018 group G preliminary round soccer match between England and Belgium in Kaliningrad, Russia, 28 June 2018.
 Mynd: EPA

Fabian Delph sagður vera öskureiður Everton

22.07.2021 - 17:37
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að 31 árs gamall leikmaður Everton hefur verið til rann­sókn­ar hjá lög­reglu í Englandi, sakaður um brot gegn barni. Leikmaðurinn hefur ekki verið nafngreindur og þar sem tveir í liðinu eru 31 árs gamlir hafa getgátur og ásakanir flogið um á netinu.

Eins og margoft hefur komið fram er annar þeirra Gylfi Sigurðsson, hinn er Englendingurinn Fabian Delph, sem sést á meðfylgjandi mynd í leik með enska landsliðinu. Að sögn vefmiðilsins The Athletic er sá síðarnefndi bálreiður yfir því að félagið hafi ekkert gert til að lýsa hann saklausan en í tilkynningu frá Everton síðastliðinn mánudag var ekkert sem sló á þær fullyrðingar pressunnar í Englandi á þá leið að leikmaðurinn hjá Everton sem væri til rannsóknar væri 31 árs gamall. Í kjölfarið fóru samfélagsmiðlar á flug með getgátum og allra handa netníði, báðum leikmönnunum til handa.

Segir Everton til syndanna

Einn nánasti vinur Delph, miðvallarleikmaðurinn Bradley Johnson sem leikur með Blackburn Rovers, setti harðorða færslu á Twitter þar sem hann gagnrýnir Everton fyrir að tala í hálfkveðnum vísum. Óvissan í málflutningi félagsins sé að valda vini hans ómældum og ómaklegum óþægindum. Glórulaust sé að halda að sér höndum með þeim afleiðingum að fleiri en einn komi til greina og fái það óþvegið fyrir bragðið. 

Delph heldur sig fjarri sviðsljósinu

Mun Delph hafa látið gremju sína í ljós gagnvart félagi sínu yfir stöðunni sem upp er komin og hefur valdið honum og fjölskyldunni miklu álagi og erfiðleikum. Hann hyggst láta lítið fara fyrir sér uns enginn vafi er lengur á því hvaða leikmann ræðir um. Delph fór til að mynda ekki með Everton í æfingaferð til Bandaríkjanna í vikunni.

Meðan annar er óstaðfestur er hinn það líka

Skýring klúbbsins er á þá leið að Delph hafi mögulega komist í snertingu við einstakling sem útsettur var fyrir Covid-19 og vilji ekki taka neina áhættu á því að smita liðsfélaga sína. Flestir eru aftur á móti á því að hann vilji einfaldlega vera með öllu utan sviðsljóssins meðan heykvíslar nettrölla eru enn mundaðar að honum vegna óvissu um nafn leikmannsins sem er til rannsóknar.

KSÍ þegir enn þunnu hljóði

Af Gylfa er það aftur á móti að frétta að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, verst enn allra frétta af máli landsliðsmannsins íslenska, og sagði síðast í dag að hann hefði ekkert um málið að segja að svo stöddu, hvorki um frekari fundarhöld knattspyrnusambandsins vegna málsins eða samband KSÍ við Everton eða lögregluna í Englandi sem fer með rannsóknina.

Tengdar fréttir

Fótbolti

The Sun segir Gylfa hafna ásökunum

Mynd með færslu

Kvöldfréttir: Gylfi sagður sæta rannsókn

Fótbolti

Tjá sig ekki nema staðfesting berist

Fótbolti

Gylfi sagður vera leikmaðurinn sem var handtekinn