Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Danskir fjárfestar leita hófanna varðandi minkarækt hér

22.07.2021 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Hópur danskra fjárfesta er væntanlegur til landsins áhugasamur um að kanna möguleika á minkaeldi hérlendis. Fyrrverandi formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda sem hefur kannað möguleikana hér segir ekkert fast í hendi en að fjárfestunum sé full alvara.

Bændablaðið greindi fyrst frá þessu. Björn Halldórsson, bóndi og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, sem hefur kannað möguleikana fyrir fjárfestana segir í samtali við fréttastofu að allir af evrópska efnahagssvæðinu geti fjárfest hér.

Eitt bú á Íslandi sé þegar í eigu Dana en fjárfestarnir tengjast ekki loðdýrarækt í Danmörku.

„Þetta eru ekki aðilar sem eru beintengdir loðdýraræktinni eins og hún var í Danmörku. Að minnsta kosti einhverjir af þeim hafa engin tengsl við loðdýraræktina og einn held ég að sé skinnakaupandi.“

Björn greinir frá því að danski loðdýrabóndinn Finn Nielsen hafi farið þess á leit við hann að ræða við forsvarsmenn sveitarfélaga nærri fóðurstöðvum og eigendur minkabúa sem hætt hafa starfsemi. Hann þekki fjárfestana ekki en hann treysti því að þeim sé alvara.

„Ég treysti bara því að þessir menn þegar þeir eru búnir að fá þær upplýsingar sem ég er að safna og Finn hefur verið að reikna fyrir þá. 
Þá taki þeir sína ákvörðun út frá, ekki bara með því að stinga fingri upp í loftið.“ 

Að sögn Björns eru fjárfestarnir væntanlegir til landsins í ágúst. Þeir séu einnig að leita hófanna í Kanada en hann telur að Ísland sé betri kostur fyrir þá.

Eftirgrennslan Björns er nánast lokið, hann kveðst búinn að ræða við sveitastjóra og núverandi eigendur minkabúa sem ekki eru í rekstri. Ekkert sé þó fast í hendi. 

„En Íslandi veitir ekkert af að styðja við atvinnulífið, sérstaklega úti á landi. Þegar fagleg úttekt frá Eflu liggur fyrir að loðdýrarækt bindur kolefni, ein af fáum atvinnugreinum á Íslandi, þá ættu menn ekki að fúlsa við því.“

Björn segir enginn eiga að velkjast í vafa um að loðskinn verði áfram í tísku. „Vilja menn frekar klæðast í olíu með því að nota gerviefni og flís og allt þetta. Þetta er bara olía og hvaða áhrif hefur það á heiminn?“