Tveimur fangavörðum haldið í gíslingu

21.07.2021 - 16:15
epa09356764 Police officers during a large police operation at Hallby Prison outside Eskilstuna, Sweden, 21 July 2021, after two inmates have taken staffmembers hostage.  EPA-EFE/PER KARLSSON SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Tveir fangar í einu rammgerðasta fangelsi Svíþjóðar hafa í dag haldið tveimur fangavörðum í gíslingu. Þeir krefjast þess að þyrla verði send á staðinn til að þeir geti flúið á brott.

Að sögn sænskra fjölmiðla sitja fangarnir inni fyrir morð í Hällby fangelsinu í grennd við Eskilstuna. Þeir náðu tveimur fangavörðum, karli og konu, á sitt vald og halda þeim í gíslingu á einni varðstofu fangelsisins. Þeir eru vopnaðir rakvélablöðum, hafa víggirt varðstofuna og hulið eftirlitsmyndavélar þannig að ekki sé hægt að fylgjast með því sem þar gerist innan dyra.

Sjúkraflutningamenn eru í viðbragðsstöðu við fangelsið. Vegatálmum hefur verið komið fyrir í grennd við það og er leitað í öllum bílum sem þar eru á ferð.

Síðdegis kröfðust fangarnir þess að fá sendar tuttugu pítsur með kebabkjöti til að gefa samföngum sínum. Orðið var við því.

Fjöldi lögreglu- og sérsveitarmanna bíður átekta við Hällby fangelsið. Fjölmiðlamenn komu á staðinn þegar lögreglu barst útkall vegna gíslatökunnar, en þeir hafa verið fluttir á brott til að tryggja öryggi þeirra, að sögn lögreglu. Í frétt Aftonbladet segir að lögreglan búi sig undir að ráðast inn og frelsa gíslana.

Fréttastofa sænska ríkissjónvarpsins segir að Hällby fangelsið sé hið rammgerðasta í Svíþjóð. Þar er pláss fyrir 98 fanga sem hlotið hafa dóma fyrir hættuleg glæpaverk.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV