The Sun segir Gylfa hafna ásökunum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

The Sun segir Gylfa hafna ásökunum

21.07.2021 - 11:33
Gylfi Þór Sigurðsson er sagður neita staðfastlega að hafa brotið gegn ólögráða einstaklingi. Liðsfélagar hans eru sagðir miður sín yfir ásökununum.

Breskir miðlar halda áfram að fjalla um mál Gylfa þótt hann hafi enn ekki verið nafngreindur þar af lagalegum ástæðum. The Sun segir frá því að samherji Gylfa, Englendingurinn Fabian Delph, hafi á samfélagsmiðlum verið ranglega sakaður um að hafa verið sá leikmaður sem Everton sendi í leyfi vegna rannsóknarinnar. Það hafi komið til vegna þess að félagið nafngreindi ekki umræddan leikmann en fjölmiðlar greindu frá því að viðkomandi væri 31 árs gamall og komu því aðeins tveir til greina, Gylfi og Delph. Því hafi fjölmargir ranglega getið sér til um  að sá síðarnefndi ætti hlut að máli.

Í umfjöllun The Sun segir að leikmenn Everton hafi fengið tíðindin af handtökunni í fyrradag. Þeim hafi verið mjög brugðið enda Gylfi vinsæll á meðal samherja sinna. Segir heimildarmaður breska blaðsins að leikmennirnir vonist til þess að um misskilning sé að ræða.  Engin yfirlýsing hefur borist frá Gylfa en í umfjöllun The Sun segir enn fremur, án þess að vísað sé til heimilda, að leikmaðurinn neiti staðfastlega ásökunum á hendur sér.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Tjá sig ekki nema staðfesting berist

Fótbolti

Gylfi sagður vera leikmaðurinn sem var handtekinn