Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nýr forsætisráðherra skipaður á Haítí

21.07.2021 - 04:41
epa09355602 Haitian Prime Minister Ariel Henry speaks during the inauguration ceremony of the new Haitian government in Port-au-Prince, Haiti, 20 July 2021. Henry was sworn in as prime minister following the 07 July assassination of president Moise.  EPA-EFE/Orlando Barria
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Ariel Henry var í gær settur í embætti forsætisráðherra Haítís við hátíðlega athöfn í höfuðborginni Port-au-Prince, sama dag og formlegar minningarathafnir voru haldnar um Jovenel Moise, forseta, sem myrtur var fyrir tveimur vikum.

Forveri Henrys, Claude Joseph, tilkynnti að hann myndi láta af embætti, eftir að hópur háttsettra diplómatar frá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Samtökum Ameríkuríkja og nokkrum af voldugustu ríkjum heims lýstu stuðningi sínum við Henry.

Forsetinn útnefndi Henry til að taka við forsætisráðuneytinu tveimur dögum áður en hann var myrtur en Joseph, utanríkisráðherra og starfandi forsætisráðherra, neitaði að víkja þar sem Henry hafði ekki svarið embættiseið þegar forsetinn féll frá.

Honum snerist þó hugur eftir yfirlýsingu erlendu erindrekanna og viðræður við Henry.  Joseph verður áfram utanríkisráðherra í ráðuneyti Henrys, og margir ráðherrar fyrri stjórnar halda einnig sínum ráðuneytum.

Segist vilja breiða sátt en sáttavilji er takmarkaður

Forsætisráðherrann nýi er 71 árs gamall taugaskurðlæknir og fyrrverandi innanríkis- og félagsmálaráðherra. Við athöfnina í Port-au-Prince sagðist hann ætla að funda með fulltrúum allra helstu flokka, þjóðfélags- og hagsmunahópa í landinu á næstu dögum. Brýnt væri að skapa breiða sátt um leiðir til að taka á þeim margþætta og djúpstæða vanda sem haítíska þjóðin á við að etja, og undirbúa kosningar hið fyrsta.

Þing er ekki starfandi á Haítí og hart er tekist á um lögmæti ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstæðingar segja Henry lítið annað en strengjabrúðu Bandaríkjanna og annarra erlendra afla og skipun hans til þess fallna að hella olíu á ófriðarbálið sem lengi hefur logað í landinu.

Þá hefur al Jazeera eftir áhrifafólki í haítískum fjölmiðlum og félagasamtökum að kosningar við fyrsta tækifæri, eins og Bandaríkjamenn, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri þrýsta á um, séu ekki endilega það skynsamlegasta í stöðunni á meðan margar lykilstofnanir landsins eru óstarfhæfar.